Embætti ríkislögreglustjóra gerir athugasemd við fréttaflutning

Lögreglan að störfum í Reykjavík
Lögreglan að störfum í Reykjavík mbl.isJúlíus Sigurjónsson

Embætti ríkislögreglustjóra vill gera athugasemd við fréttaflutning Stöðvar 2 síðustu daga, um meint harðræði lögreglu. Í fréttum hefur m.a. verið haft eftir ónefndum lögmönnum að það þjóni ekki tilgangi að kæra lögreglu vegna harðræðis og að slík mál séu nánast sjálfkrafa felld niður.

„Þetta er ekki sannleikanum samkvæmt. Í þeim tilvikum sem kærur berast til lögreglu vegna meintra brota lögreglumanna eru þær sendar ríkissaksóknara sem rannsakar málin sérstaklega, sbr. 35. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Ríkislögreglustjóri metur hvort víkja beri kærðum lögreglumönnum frá störfum. Á undanförnum árum hefur margoft reynt á þessa málsmeðferð hjá ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra.

Embætti ríkislögreglustjóra hefur sett lögreglumönnum siðareglur, vinnu- og verklagsreglur þar sem réttar starfsaðferðir lögreglu eru útfærðar með nákvæmum hætti. Mjög mikil eftirfylgni hefur verið með því að lögregla sinni störfum sínum af fagmennsku, í samræmi við lög, vinnu- og verklagsreglur, eins og dæmin sanna.

Sú staðreynd að flestar kærur er varða meint brot lögreglumanna eru felldar niður af ríkissaksóknara staðfestir einfaldlega að lögregla hér á landi vinnur faglega og í samræmi við lög. Reglulegar kannanir Gallup staðfesta jafnframt að lögreglan nýtur stöðugs trausts í samfélaginu. Í langflestum tilvikum eru samskipti lögreglu og borgara góð og án eftirmála.

Athugasemdir um að ómálefnaleg sjónarmið séu til staðar við rannsókn mála er varða meint brot lögreglumanna í starfi eru úr lausu loftir gripnar," að því er segir í athugasemd embættis ríkislögreglustjóra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert