Lagt til að fargjald í strætó lækki í 100 krónur í mars

Lagt hefur verið til að strætó lækki fargjaldið til að …
Lagt hefur verið til að strætó lækki fargjaldið til að sporna við svifryksmyndun. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar lögðu til í borgarráði nú í morgun að ráðið samþykkti að beina því til stjórnar Strætó bs. að gerð verði tilraun nú í mars um að staðgreiðslugjald verði 100 kr. fyrir alla í strætó til að sporna gegn svifryksmengun. Tillögunni var vísað til umsagnar umhverfisráðs og samkvæmt tilkynningu frá Samfylkingunni voru það vonbrigði.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar telja að um mjög raunhæfa tillögu sé að ræða þar sem hægt væri að sameinast um og koma í framkvæmd án mikils fyrirvara verkefni sem myndi stuðla að því að draga úr svifryksmengun í borginni nú í mars og til að kanna hvort einfaldara staðgreiðslugjald hefur áhrif á notkun almenningssamgangna.

Þess má geta að í Þórshöfn í Færeyjum var ákveðið að hafa strætisvagnaþjónustuna ókeypis til reynslu í 3 ár og mun það hafa gefist vel og mun farþegafjöldinn hafa aukist um 100 %.

Í tilkynningu frá Samfylkingunni kemur fram að mars er sá mánuður ársins sem mest svifryksmengun er í borginni samkvæmt mælingum fyrri ára.

„Einu raunhæfu leiðirnar til að draga úr þeirri mengun er að hvetja borgarana til að fækka ferðum á einkabílnum, einkum þeim bílum sem eru á nagladekkjum og nýta sér aðra samgöngumáta s.s. að ganga, hjóla og eða taka almenningssamgöngur," segir í fréttatilkynningunni.

Samkvæmt fréttatilkynningunni hefur ítrekað verið bent á að staðgreiðslufargjöld séu ekki nógu hentug, óalgengt sé að fólk eigi nákvæmlega 280 kr. og þetta geti hamlað notkun strætisvagna. Tillagan tekur mið af lægsta staðgreiðslufargjaldi og er nálægt greiddu meðalfargjaldi Strætó sem er rúmlega 90 kr. og ætti því að geta fengist samþykkt í stjórn Strætó bs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert