Ummæli um eigendur starfsmannaleigu ómerkt

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur ómerkt ummæli, sem Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins lét falla í viðtölum við fjölmiðla um eigendur starfsmannaleigu, sem m.a. flutti inn pólska verkamenn til starfa við Kárahnjúkavirkjun. Guðmundur var dæmdur til að greiða samtals 800 þúsund krónur í bætur auk 200 þúsund króna til að kosta birtingu dómsins í fjölmiðlum.

Málið var höfðað vegna viðtala við Guðmund Gunnarsson í október 2005 í Ríkissjónvarpinu og á Stöð 2 um þau Eið Eirík Baldvinsson og Olena Shchavynska, sem reka starfsmannaleiguna 2b ehf.

Eftirtalin ummæli Guðmundar í Stöð 2 voru kærð:

    „... að svona dólgar sem koma svona fram við fólk að þetta er í sjálfu sér nákvæmlega sama tóbakið og þeir sem eru að flytja konur frá Austurlöndum og börn og selja þau í kynlífsþrælkun.“

    „Þarna eru dólgar að flytja inn bláfátækt verkafólk og notfæra sér eymd þess til þess að hagnast á því.“

    „Þeir eru að stinga hluta af launum þessa fólks í eigin vasa.“

    „Eiginkona þessa manns, sem er samlandi þessara manna, þ.e.a.s. pólsk kona, hún er að hóta því að ef þeir séu ekki þægir og góðir þessir menn þá verði þeir fluttir til Reykjavíkur og settir í alls konar skítadjobb og þeir verði látnir borga 80 þúsund kall kostnað og fyrir 1 dollara á tímann.“

    „Og hún gengur á milli verkstjóranna austur á Kárahnjúkasvæði og segir að ef þeir eru ekki þægir og góðir þessir Pólverjar að þá skuli þeir bara ganga í skrokk á þeim.“

Eftirfarandi ummæli í fréttum Sjónvarpsins voru kærð:

    „Síðan eru okkur sýndir einhverjir launaseðlar sem eru svo bara tóm della. Og síðan eru okkur sýndir ráðningarsamningar sem að þeir kannski hafa aldrei séð sjálfir, þannig að þetta er svona bara skipulögð glæpastarfsemi, það er ekki hægt að kalla þetta neitt annað”.

    „Já, konan, pólska konan, sem er annar eigandi þessa fyrirtækis, hún fór og sagði við verkstjórann, einn af verkstjórunum þarna upp frá, að ef að þeir væru með eitthvert múður þessir Pólverjar þá ætti bara að lemja þá, þeir væru vanir því úr sínu heimalandi.“

    „Ja, við ætlum að fletta ofan af þessu fyrirtæki bara alfarið og við erum að vinna í því núna.“

Dómurinn féllst ekki á að ómerkja ætti ummæli um eigendur starfsmannaleigunnar væru að stinga hluta af launum þessa fólks í eigin vasa í ljósi þess, að eigendurnir hefðu verið dæmdir fyrir að draga ýmsan kostnað frá launum pólskra verkamanna. Einnig voru ummæli um að til stæði að fletta ofan af fyrirtækinu ekki talin brjóta gegn lögum. Önnur ummæli voru hins vegar taldar ósannaðar og ærumeiðandi aðdróttanir og voru því ómerkt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert