Einar K. Guðfinnsson: Ekki óeðlilegt í ljósi umræðu og óvissu um framhaldið

Einar Kristinn Guðfinnsson
Einar Kristinn Guðfinnsson

Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, segir að sér komi ekki á óvart að þeim hafi fjölgað sem séu á móti því að hvalveiðar hafi verið hafnar að nýju. Segir Einar að umræðan um hvalveiðar hafi verið neikvæð hér á landi, og að meðan óvissa ríki um framhaldið og sölu á hvalkjöti sé ekki óeðlilegt að þeim fjölgi eitthvað sem óánægðir séu með stöðu mála.

Aðspurður segist Einar ekki telja að viðbrögð erlendis hafi haft mikil áhrif. Hins vegar segir hann engan vafa leika á því að viðbrögð erlendra aðila hafi verið blásin upp hér á landi.

„Viðbrögð erlendis frá hafa sannast sagna verið mjög lítil, og ég á ekki von á að þau í sjálfu sér hafi haft mikil áhrif, opinber umræða hefur hins vegar verið neikvæð m.a. hjá áhrifamiklum fjölmiðlum”, segir Einar. „Hin meintu neikvæðu áhrif eru ekki til staðar, ferðamönnum fer fjölgandi og sala á afurðum erlendis gengur vel”.

Þá segir Einar það vekja athygli að fimmti hver þeirra sem tók þátt í könnuninni láti sér málið í léttu rúmi liggja, og telji þetta ekki vera stórmál, þrátt fyrir að það hafi verið mikið til umræðu hér á landi. Einar segist sammála þessu mati, ákvörðunin sé svo rökrétt að hún eigi ekki að sæta miklum tíðindum.

„Það má heldur ekki gleyma því að mjög áhrifamiklir og fjárhagslega sterkir aðilar hafa beitt sér gegn hvalveiðum, og slíkt hefur fengið stjórnmálamenn og álitsgjafa til að skjálfa á beinunum. Sú umræða sem í kjölfar fór hefur svo líklega smitað út frá sér”.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert