Götusmiðjunni boðið húsnæðið að Efri-Brú

Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra
Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra

Götusmiðjunni stendur til boða að flytja sig inn í húsnæðið að Efri-Brú þar sem Byrgið var áður. Þetta tilkynnti Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra Götusmiðjunni í dag. Á vegum Götusmiðjunnar er rekin meðferð fyrir fíkniefnaneytendur og hefur starfsemin að undanförnu verið í húsnæði að Gunnarsholti sem orðið var lélegt.

Treysti Götusmiðjan sér ekki lengur til að vera þar, og hefur óskað úrbóta af hálfu félagsmálaráðuneytisins frá því í júni 2006. Ráðuneytið kemur að málefnum Götusmiðjunnar í gegnum samning við Barnaverndarstofu.

Að sögn Magnúsar Stefánssonar er mikill munur á aðkomu ráðuneytisins annars vegar gagnvart Götusmiðjunni og hinsvegar Byrginu á sínum tíma.

„Barnaverndarstofa er með samning við Götusmiðjuna um tiltekna þjónustu, en það var ekki um slíkt [samning] að ræða varðandi Byrgið, heldur eingöngu fjárstyrkur. Samkvæmt samningnum fylgist Barnaverndarstofa með starfsemi Götusmiðjunnar og Ríkisendurskoðun hefur einnig haft eftirlit með henni. Á síðasta ári gerði stofnunin úttekt á Götusmiðjunni og gaf henni mjög góða einkunn," segir Magnús.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert