Aðeins í Sviss eru lyf dýrari en á Íslandi

Lyfjaverð hér er eitt það hæsta í Evrópu.
Lyfjaverð hér er eitt það hæsta í Evrópu. mbl.is/Kristinn

Aðeins í Sviss eru lyf dýrari en á Íslandi, samkvæmt könnun, sem Eurostat, hagstofa Evrópusambandsins, hefur gert á lyfjaverði í 33 Evrópulöndum. Samkvæmt könnuninni var lyfjaverð á Íslandi 60% hærra í nóvember árið 2005 en meðalverðið í löndunum 33 en í Sviss var verðið 87% hærra.

Eurostat bar saman verð á 181 algengu lyfi í löndunum 33. Þar af voru 75% frumlyf og 25% voru samheitalyf. Sviss og Ísland voru í nokkrum sérflokki en í þriðja sæti var Þýskaland þar sem lyfjaverð var 28% yfir meðaltali. Þar fyrir neðan komu Danmörk, Noregur, Írland og Ítalía en Frakkland, Holland, Austurríki, Malta, Belgía, Lúxemborg og Kýpur voru einnig yfir meðaltalinu.

Rétt undir meðalverðinu voru Svíþjóð, Portúgal, Bretland, Frakkland og Slóvakía. Síðan var talsvert stór hópur þar sem lyfjaverð var 20% eða meira undir meðaltali: Búlgaría, Tékkland, Eistland, Grikkland, Spánn, Lettland, Litháen. Ungverjaland, Pólland, Rúmenía, Slóvakía, Króatía og Tyrkland. Lægst var verðið í Makedóníu eða 42% undir meðalverði.

Löndin sem tekin voru með í samanburðinn eru Evrópusambandsríkin 27, þrjú lönd sem sótt hafa um aðild að ESB, og þrjú EFTA-ríki.

Samantekt Eurostat

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert