Vilja ekki útiloka Norðlingaölduveitu

Jónína Bjartmarz.
Jónína Bjartmarz. mbl.is

Ljóst er að tillögur starfshóps sem Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra skipaði til að fjalla um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum ganga skemur en ráðherra hefði kosið. Hópurinn er skipaður fulltrúum sveitarstjórna á svæðinu. Hann vill stækka friðlandið mikið til austurs en hugmyndin um Norðlingaölduveitu er enn inni í myndinni þótt þrengt sé að henni þar sem Kvíslarveita 6 er slegin af.

„Ég setti vinnu þessa starfshóps í gang til að freista þess að stækka friðlandið í Þjórsárverum meðal annars til suðurs og markmiðið var að ná öllu votlendinu með," segir Jónína. "En í tillögunni eru Eyvafenin úti, þau eru hluti af votlendinu. Mergurinn málsins er að við förum ekki gegn vilja sveitarstjórna vegna þess að skipulagsvaldið er þeirra.

Fram kemur í skýrslu hópsins að þeir vilji ekki fara með friðlandið lengra til suðurs vegna réttaróvissu í tengslum við virkjunarframkvæmdir. Aðspurðir segjast þeir ekki vilja ganga lengra jafnvel þó að réttaróvissan væri ekki fyrir hendi.

Margir hafa barist fyrir því árum saman að Þjórsárverin verði skilgreind sem allt votlendið. Þetta fólk segir að deilur muni verða um friðlýsinguna þar til úr því verði skorið hvort Norðlingaölduveita verði að veruleika. Þá er það spurningin hvort rétt sé að friðlýsa í samræmi við tillögur starfshópsins núna og síðan, þegar Alþingi fer að vinna að verndaráætlun virkjanakosta þar sem allir virkjunarkostir eru undir, að þingið ákveði að allt votlendið sé undir og afturkalli þá virkjunarleyfi Landsvirkjunar. Hinn kosturinn væri að gera ekki neitt í málinu ef ekki næst full sátt um þessa tillögu sem gagnmerkt skref."

Jónína er spurð hvort samstaða sé um stefnu hennar í málinu í ríkisstjórninni en svarar því til að ekki hafi verið fjallað um málið þar.

"Umhverfisráðherra getur friðlýst svæðið en þar sem um þjóðlendu er að ræða þarf til þess samþykki forsætisráðuneytisins. Ég hef þegar sagt að ég teldi að svo væri komið í orkuöflun þjóðarinnar að það væri rétt að huga að því að stækka friðlandið í Þjórsárverum þannig að allt votlendið væri með. Það myndi útiloka Norðlingaölduveitu. En ég sagði líka að það yrði aðeins gert í samráði við sveitarstjórnirnar.

Héraðsdómur felldi sinn dóm, sem Landsvirkjun kaus að áfrýja ekki, en í dóminum segir að tilteknar breytingar á framkvæmd Norðlingaölduveitu þurfi að fara í mat á umhverfisáhrifum. Landsvirkjun hefur ekki hafið þá vinnu. Þá er spurningin hvort dómurinn valdi því að forsendur virkjanaleyfisins sem Alþingi veitti séu brostnar," segir Jónína Bjartmarz.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert