Sýslumaður talinn hafa brotið jafnréttislög

Kærunefnd jafnréttismála telur, að sýslumaðurinn á Húsavík hafi brotið gegn jafnréttislögum með því að greiða konu, sem gegndi embætti fulltrúa við embættið, lægri laun en karli, sem einnig starfaði sem fulltrúi.

Konan taldi að sér hefði verið mismunað þar sem henni hafi verið greidd lægri laun en karlinn fyrir jafnverðmætt og sambærilegt starf. Sýslumaðurinn hélt því hins vegar fram að störf konunnar og karlsins væru ekki sambærileg og jafnverðmæt. Launamunurinn skýrist af málefnalegum ástæðum sem ekkert hafi með kynferði umræddra starfsmanna að gera.

Kærunefndin taldi hins vegar, að í ljósi þess að enginn samanburður hafi farið fram á inntaki starfa konunnar og karlmannsins sem hún bar kjör sín saman við, yrði ekki talið að sýslumanninum hafi tekist að sanna að hlutlægar og málefnalegar ástæður hafi ráðið þeim kjaramuni sem er á störfunum. Þótt karlinn hafi gegnt stöðu staðgengils sýslumanns skýri það einungis hluta þess munar, sem sé á kjörum aðilanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert