Íslenskar konur fara fram á bætur vegna sílikonfyllinga

Sílikoni komið fyrir í brjósti.
Sílikoni komið fyrir í brjósti. mbl.is

65 íslenskar konur, sem fengu sílikonfyllingar í brjóst sín árið 1992 eða fyrr, hafa lagt fram kröfu um skaðabætur frá fyrirtækinu sem framleiddi gelið í fyllinguna, Dow Corporation.

Fundur um kröfugerðina verður haldinn í Reykjavík 12. júní frá kl. 9:00 - 12:00 á Hótel Reykjavík, Aðalstræti 16. Þar verður konunum gefið tækifæri til þess að „læra meira um ferli bótakrafa, þar á meðal krafa fyrir sjúkdóma tengdum sílikoni, sprungnum fyllingum og fyllingum sem hefur þurft að fjarlægja.“ segir í fréttatilkynningu.

Melissa Ferrari, lögfræðingur Tort kröfuhafanefndarinnar, sem sér um kröfur evrópskra kvenna á hendur fyrirtækisins, kemur til landsins þann 12. júní ásamt David Austern, yfirmanni stofnunarinnar sem sér um að fara yfir kröfurnar þegar þær hafa verið lagðar fram. Svo hægt sé að fá greiddar bætur verða konurnar að leggja fram sönnunargögn þess efnis að sílikonfylling þeirra hafi verið frá umræddu fyrirtæki og að hún hafi sprungið eða önnur vandamál hlotist af.

Sílikonfyllingar, til notkunar í fegurðarskyni, voru teknar af markaði í Bandaríkjunum árið 1992, en eru enn notaðar til þess að búa til ný brjóst eftir uppskurð vegna brjóstakrabbameins eða ef konur fengu fyllinguna fyrir árið 1992. Þær eru þó enn leyfðar í Evrópu.

Málið gegn Dow Corporation nær allt aftur til ársins 1994 þegar hópur bandarískra kvenna kærði fyrirtækið fyrir að selja óáreiðanlega vöru. Síðan þá hafa þúsundir bandarískra kvenna fengið greiddar bætur. Árið 1995 lýsti fyrirtækið yfir gjaldþroti, hætti öllum viðskiptum með sílikonfyllingar og stofnaði sjóð til þess að standa undir kröfugerðum kvenna sem hlotið höfðu skaða af fyllingunum.

Í samtali við fréttavef Morgunblaðsins sagðist Ferrari hvetja konurnar til þess að mæta og ganga frá sínum málum svo þær geti fengið bætur greiddar. Einnig segir hún konur, sem höfðu skráð sig upphaflega sem þátttakendur í kröfugerðinni, en ekki fylgt málum sínum eftir, ættu að mæta og halda áfram. Konur sem fengu sílikonfyllingu árið 1992 eða fyrr og orðið fyrir einhverjum skaða, en ekki leitað réttar síns, geta komið og kannað stöðu sína. En til þess að gera kröfu um bætur núna, verði að leita samþykkis dómara.

„Við vitum ekki nákvæmlega hversu margar konur hafa fengið sílikonfyllingar á Íslandi, en þær eru samtals 65 sem leggja fram kröfu á hendur Dow Corporation,“ segir Ferrari „við höfum haldið svipaða fundi í Englandi, Þýskalandi, Hollandi og fjölmarga í Bandaríkjunum“. Sjóður Dow hefur síðan árið 2004 greitt út samtals 833.759.401,60 dollara í bætur til 9.126 kvenna víðs vegar um heiminn, samkvæmt heimasíðu Tortnefndarinnar. Þá hafa samtals 54.420 kröfur verið lagðar fram.

„Sílikonfyllingar voru sérstaklega hættulegar hér á árum áður, því þær sprungu nær alltaf eftir um það bil 10 ár og afleiðingarnar hafa verið alvarlegar,“ segir Ferrari aðspurð um ástand kvennanna. „Sum málin eru ótrúleg. Brjóstin voru skorin af einum skjólstæðinga minna til þess að koma í veg fyrir arfgengt brjóstakrabbamein. Hún vissi ekki þegar hún fór í uppskurðinn að hún fengi sílikonbrjóst í staðinn. Síðar kom í ljós að hún hafði ekki fengið krabbamein, en er nú bundin við hjólastól vegna afleiðinga af sprunginni sílikonfyllingu."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert