Skerpa þarf reglur um 50% veiðiskyldu segir sjávarútvegsráðherra

Handhafar aflaheimilda hafa frjálsar hendur um framsal aflaheimilda og þegar þær hækka í verði þá fara þær frá heimamönnum. Þetta kom fram í máli Kristins H. Gunnarssonar, Frjálslyndum, í utandagskrárumræðum á Alþingi um áhrif framsals aflaheimilda í sjávarbyggðum landsins. Segir hann að það eigi allir að sjá að eftir síðustu atburði í þessum málum að núverandi ástand gangi ekki lengur.

Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, segir að það megi ekki gleyma því að sjávarútvegurinn verði að geta keppt við aðrar atvinnugreinar sem herja á sjávarútveginn hvað varðar vinnuafl ofl.

Segir Einar að framsal aflaheimilda dragi til að mynda úr kostnaði. Segir hann að byggðakvóti sé til þess að bregðast við neikvæðum hliðum framsals aflaheimilda. 50% veiðiskyldan er ekki að virka sem skyldi og það þarf að endurskoða hana, segir sjávarútvegsráðherra. Einar segist vera þeirrar skoðunar að það eigi að vera ákveðin veiðiskylda í gangi. Slíkt séu flestir sammála um og var 50% reglan þess vegna tekin upp með lögum frá Alþingi. Hann telur að það þurfi að gera þessa reglu skarpari þannig að vilji Alþingis með lagasetningunni komi skýrt fram.

Hann sagði einnig að það þyrfti að skoða hvernig hægt sé að styrkja forkaupsrétt heimamanna hvað varðar framsal aflaheimilda.

Karl V. Matthíasson, Samfylkingu, segir að ástandið á Flateyri sýni að grípa verði til bráðaaðgerða í málefnum sjávarbyggða landsins. Hann segir að sjávarútvegurinn sé undirstöðuatvinnugrein en að fleiru verði að hyggja. Svo sem samgöngum og öðrum atvinnugreinum.

Valgerður Sverrisdóttir, Framsóknarflokki, segir að hvað varðar framsali á aflaheimildum sé mögulegt að takmarka það frekar. Hins vegar megi ekki gleyma því að róttækar breytingar hafi mest áhrif á kvótalausa báta.

Grétar Mar Jónsson, Frjálslynda flokknum, segir að byggðakvóti upp á 140 tonn í einhver sveitafélög geri ekki nokkurn skapaðan hlut. Slíkt geti einn bátur veitt á einni viku. Það þurfi að taka sjávarútveginn til gagngerar endurskoðunar. Ekki bara kerfið heldur einnig Hafrannsóknarstofnun og vinnubrögð hennar. Segir hann með ólíkindum að forstjóri Hafró geti haldið því fram að brottkast skipti ekki máli ef það er svipað ár frá ári.

Illugi Gunnarsson, Sjálfstæðisflokki, segir að ekki verði fram hjá því horft að núverandi kerfi hafi skipt sköpun í sjávarútveginum undanfarin ár. Vandi sjávarbyggða er ekki bara fólgin í framsali aflaheimilda. Störfum við hefðbundinn sjávarútveg hefur farið fækkandi. Auðvitað segir þetta til sín í byggðaþróun segir Illugi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert