Markviss stjórn útivistarsvæða Orkuveitu Reykjavíkur

Þúsundir landsmanna auk mikils fjölda erlendra ferðamanna sækja útivistarsvæði Orkuveitunnar …
Þúsundir landsmanna auk mikils fjölda erlendra ferðamanna sækja útivistarsvæði Orkuveitunnar heim á hverju ári.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hefur kosið sérstaka stjórn yfir þau útivistarsvæði sem fyrirtækið á eða hefur umsjón með og almenningur nýtir sér. Á meðal þessara svæða er Elliðaárdalurinn, stór hluti Heiðmerkur, verulegur hluti hinna vinsælu útivistarsvæða við Hengilinn og í Grafningi auk umhverfis Deildartunguhvers í Borgarfirði.

Fram kemur í tilkynning að hundruð þúsunda ferðafólks leggi leið sína um þessi svæði ár hvert.

Í farteski stjórnar útivistarsvæðanna er ný stefnumótun Orkuveitunnar varðandi svæðin. Helstu atriði hennar eru stóraukin umsvif í landbótaverkefnum og að almenningur og félagasamtök verði virkjuð til þátttöku í verkefnunum.

Fram kemur að það sé stefna Orkuveitunnar að aðbúnaður ferðafólks – gangandi, ríðandi eða akandi – verði sem bestur á þessum mikilvægu stöðum, sem ýmist eru í þéttbýlinu eða í næsta nágrenni þess.

Í stjórn útivistarsvæðanna voru kjörin þau Kjartan Magnússon borgarfulltrúi, sem verður formaður hennar, Jórunn Frímannsdóttir, Jakob Hrafnsson, Dofri Hermannsson og Friðrik Dagur Arnarsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert