Réttað yfir Dana sem hrinti Íslendingi fyrir lest

Réttarhöld hófust í gær í Danmörku yfir 26 ára gömlum Dana, sem ákærður er fyrir manndrápstilraun með því að hrinda íslenskum jafnaldra sínum fyrir lest á Nørreport lestarstöðinni í Kaupmannahöfn í ágúst í fyrra. Íslendingurinn slapp með skrámur og þótti það ganga kraftaverki næst.

Að sögn Ekstra Bladet viðurkenndi Daninn, sem heitir Jonatan Falk, fyrir Eystra landsrétti í gær að hafa ýtt Íslendingnum fyrir lestina en neitaði að hann hefði ætlað að ráða honum bana.

Vitni, leigubílstjóri og farþegi hans, bera hins vegar að Falk hafi komið hlaupandi inn í bílinn og boðið bílstjóranum hass fyrir að aka sér á brott. Segja vitnin, að Falk hafi sagt að hann hefði lent í slagsmálum og óskaði þess að sá sem hann var að slást við væri dauður.

Bæði Falk og Íslendingurinn voru heimilislausir í Kaupmannahöfn þegar þessi atburður gerðist. Ekstra Bladet segir, að áfengismagn í blóði Íslendingsins hafi verið 3,9‰ þegar þessir atburðir gerðust og það kunni að skýra hvers vegna hann slapp jafn vel og raun bar vitni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert