Hraðinn drepur - getuna

Höfðað er til ábyrgðarkenndar ungra ökumanna í nýjum íslenskum forvarnarauglýsingum, en í hliðstæðum áströlskum auglýsingum er aftur á móti gefið í skyn að þeir sem aka hratt séu „litlir menn.“

Tengil á áströlsku auglýsinguna má finna hér að neðan.

Auglýsingaherferð Umferðarstofu heitir „Hraðinn drepur - í alvörunni.” Sjónvarpsauglýsingin er að stærstum hluta teiknuð hreyfimynd sem telst nýbreytni við gerð auglýsingaherferða Umferðarstofu. Einnig voru gerðar blaða- og útvarpsauglýsingar.

Í fréttatilkynningu frá US segir:

„Almennt má segja að ungir ökumenn standi sig mun betur í umferðinni núna en áður. Þetta sýna slysa- og óhappatölur undanfarinna ára frá Umferðarstofu og tryggingarfélögum.

Ungir ökumenn eru þó vitanlega stór áhættuhópur bæði vegna skorts á reynslu og þroska og einnig vegna margskonar félagslegs áreitis sem getur leitt til áhættuhegðunar.

Það eru til dæmi um að lögregla og vegfarendur upplifi atburðarás í umferðinni sem líkist því sem sjá má í spennandi bílatölvuleik.

Halda mætti að ökumaðurinn telji sig þátttakanda í leik sem að er utan veruleikans. Afleiðingar þess eru hinsvegar aðrar en í leiknum og oft mjög alvarlegar.“

Jafnframt er leitast við að fræða ökumenn um harðari viðurlög við umferðarlagabrotum sem nýlega tóku gildi. Sem dæmi má nefna að hægt er að setja nýliða sem gerist brotlegur í umferðinni í akstursbann, og fær hann ekki prófið aftur fyrr en að loknu námskeiði og ökuprófi.

Þetta ákvæði er til viðbótar við sektir og tímabundna sviptingu ökuréttinda, en sektir fyrir umferðarlagabrot hafa hækkað.

Sjónvarpsauglýsingin er unnin eftir hugmyndum auglýsingastofunnar Hvíta hússins, og gerð teiknimyndarinnar var í höndum fyrirtækisins „I love Dust” í Bretlandi.

Ástralska forvarnarauglýsingin

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert