Fimmti hlýjasti júnímánuðurinn í Reykjavík frá því mælingar hófust

Fólk naut veðurblíðunnar í Nauthólsvík
Fólk naut veðurblíðunnar í Nauthólsvík mbl.is/Ómar

Meðalhiti á Akureyri í júní var 10,7 stig. Það er yfir meðallagi en hlýrra var í júní í fyrra. Meðalhitinn í Reykjavík var sá sami. Þetta var fimmti hlýjasti júnímánuður síðan mælingar hófust í borginni fyrir 130 árum, en hitametið var sett 2003, 11,3 stiga meðalhiti. Á Hveravöllum hefur ekki mælst hlýrri júnímánuður frá því mælingar hófust árið 1965, en meðalhiti mældist þar 7,7 stig.

Úrkoma var 25 mm í Reykjavík. Ekki hefur verið þurrara í 10 ár, eða síðan 1997. Á Akureyri hefur hins vegar ekki verið þurrara síðan mælingar hófust árið 1928. Vitað er að næstum engin úrkoma féll á Akureyri í júní 1916 en þær tölur teljast ekki fyllilega samanburðarhæfar við nýrri gögn.

Sólskinsstundir voru 195 í Reykjavík í júní, eða 34 yfir meðaltali. Það er þó langt frá því að teljast met, en metið er 338 stundir. Á Akureyri voru sólskinsstundir 217 eða 40 yfir meðallagi. Sólin hefur því ekki skinið skærar á Akureyringa síðan 2001. Þar er metið 285 stundir í júní.

Trausti Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir þetta í stíl við veðurfar í júní síðasta áratuginn. Hlýindi og sólskin í júní hafa verið í tísku en maí hefur frekar verið undir meðaltali á þeim tíma.

Trausti vill engu lofa um veðráttuna í júlí sem nú er nýbyrjaður, en segir að meðalhiti í júlí hafi ekki farið undir 10 stig síðan 1992. Nokkrum sinnum hefur það þó komið fyrir á undanförnum árum að júní hefur verið hlýrri en júlí, sem er óvenjulegt á heildina litið, að sögn Trausta, sem segir ágústmánuð líka hafa verið mjög afbrigðilega hlýjan síðustu 10 ár. Það gæti því allt eins verið að landsmenn fengju hvíld á blíðunni þar til í ágúst.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert