Fiskifélag Íslands í samvinnu við sjávarútvegsráðuneytið kynnti í dag umhverfisyfirlýsingu um íslenskar fiskveiðar. Er félagið með þessu að bregðast við auknum kröfum á erlendum fiskmörkuðum um staðfestingu þess að nýting íslenskra fiskistofna sé með ábyrgum hætti og í samræmi við afrakstursgetu þeirra.
Sjávarútvegsráðherra, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, Fiskistofustjóri og framkvæmdastjóri Fiskifélags Íslands skrifuðu undir yfirlýsinguna og gerðu jafnframt grein fyrir næstu skrefum sem tekin verða til að mæta kröfum markaðarins um sjálfbæra nýtingu fiskistofna.
Í tilkynningu segir, að áherslan hafi beinst að tveimur atriðum, sem í sjálfu sér séu nátengd. Í fyrsta lagi að útbúa yfirlýsingu um íslenskar fiskveiðar, þar sem ábyrgir aðilar innan sjávarútvegsins, sem fást við stjórnsýslu, rannsóknir og starfa innan greinarinnar, geri grein fyrir hvernig íslensk fiskveiðistjórnun virkar.
Í öðru lagi að koma á ferli, sem gerir framleiðendum kleift að fá staðfestingu á því að sú vara sem þeir bjóða upp á, sé unnin úr hráefni sem aflað var með veiðum sem lúta íslenskri fiskveiðistjórnun. Þetta ferli verði vottað af þriðja aðila sem til þess er hæfur og í tengslum við það gætu framleiðendur fengið aðgang að því að nota sérstakt merki á framleiðslu sína til staðfestingar að þeim skilyrðum sé fullnægt.
Yfirlýsingin, sem gefin var út í dag, er í raun undirbúningur fyrir þetta vottaða ferli og er stefnt að því að fyrstu drög að því verði tilbúin á haustdögum í ár.