Fjármagnstekjur skerða tekjutryggingu öryrkja

Tryggingastofnun segir ljóst, að öryrkjar hafi minna upp úr því en aðrir að leggja fé fyrir þar sem fjármagnstekjur skerði tekjutryggingu þeirra. Þetta sé áhugaverð staðreynd fyrir alla þá, sem berjast fyrir bættum hag öryrkja.

Fram kemur á heimasíðu stofnunarinnar, að grein, sem birtist í Velvakanda Morgunblaðsins í byrjun ágúst hafi orðið til þess að starfsmenn Tryggingastofnunar skoðuðu þetta mál.

Í greininni í Velvakanda hafi því verið haldið fram að tekjutrygging ásamt heimilisuppbót öryrkja með eina milljón í fjármagnstekjur skerðist um 600 þúsund krónur á ári. Dæmi sé tekið af öryrkja sem vinnur 10 milljónir króna í happdrætti eða lottói. Hann leggur þær inn á lokaða sparibók í eitt ár og hefur eina milljón í fjármagnstekjur upp úr því. Greinarhöfundur heldur því svo fram að við þetta skerðist tekjutrygging og heimilisuppbót öryrkjans um 50 þúsund krónur á mánuði eða 600 þúsund krónur á ári.

Tryggingastofnun segir, að útreikningar hennar sýni að þetta sé orðum aukið. Þótt happdrættisvinningar séu yfirleitt skattfrjálsir þurfi allir að greiða 10% skatt af fjármagnstekjum eða 100 þúsund krónur af hverri milljón. Rétt sé, að tekjur og heimilisuppbót öryrkja skerðast vegna fjármagnstekna en á móti komi lækkun staðgreiðslu skatta. Heildarskerðing tekna öryrkja umfram aðra sé því mest 172.619 krónur á ári. Ef öryrki býr með öðrum er skerðingin minni.

TR segir, að breytingar á almannatryggingakerfinu, sem taka gildi um næstu áramót, leiði til þess að skerðing tekjutryggingar og heimilisuppbótar minnki.

Af dæminu megi hins vegar glöggt sjá að öryrkjar hafi minna upp úr því en aðrir að leggja 10 milljóna króna happdrættisvinning inn á sparibók.

Tryggingastofnun

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert