Ástarandinn kominn yfir Bolvíkinga

300 ástarvikublöðrum var sleppt til himins með ástarkveðju til heimsbyggðarinnar.
300 ástarvikublöðrum var sleppt til himins með ástarkveðju til heimsbyggðarinnar. bb.is/

Ástarvikan er hafin í Bolungarvík en fjöldi manns setti hátíðina formlega í gær með því að sleppa 300 gasblöðrum til himins með ástarkveðju til heimsbyggðarinnar.

„Ástarvikan leggst vel í okkur og við erum klár í slaginn“, segir Birna Hjaltalín Pálmadóttir, framkvæmdastjóri Ástarvikunnar í ár. „Það er góð stemning í bænum, það eru komin rauð hjörtu í gluggana og kveikt á ljósaseríum svo að það lítur út fyrir að ástarandinn sé kominn yfir bæjarbúa.“

Fram kemur á vestfirska fréttavefnum Bæjarins besta að við setningu hátíðarinnar í gær hafi ástarvikubörnin verið verðlaunuð, sem eru tvö þetta árið. Þá segir að megintilgangur Ástarvikunnar sé að hvetja til kærleiksríkra samskipta með jákvæðni og uppbyggingu hvert við annað og að leggja sitt af mörkum til að fjölga Bolvíkingum.

Meðal þess sem verður í boði á þéttskipaðri dagskrá er faðmlaganámskeið, listsýning leikskólabarna, ævintýraskútusigling, tónleikahald og flutningur ástarljóða vestfirskra skálda.

Hápunktur hátíðarinnar er Heilsueflingarhláturhátíðarkvöld sem haldið verður í Víkurbæ á laugardag þar sem dúettinn Dúo Jazz Bonnie and Clyde hefja leikinn en síðan mun gamanleikkonan góðkunna Edda Björgvinsdóttir stíga á svið og fara með uppistand um ástina. Það fjallar um eiturefnaúrgangsskrímsli sem eyðileggur allt ástarlíf. Edda mun gera grín að sjálfri sér auk þess sem hún gefur góð ráð til að rotna ekki innan frá og halda kynorkunni fram í rauðan dauðann. Þá verða fjöldaástarlög sungin og í tilkynningu er lofað frábærri stemningu inn í nóttina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert