Öllum starfsmönnum Ratsjárstofnunar sagt upp

Öllum starfsmönnum Ratsjárstofnunar, sem eru 46, verður sagt upp störfum í tengslum við endurskipulagningu á starfsemi stofnunarinnar. Væntanlega verður mörgum þeirra boðin endurráðning. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu í dag. Íslensk stjórnvöld taka á morgun að fullu við rekstri og verkefnum stofnunarinnar af Bandaríkjamönnum.

Í tilkynningunni segir ennfremur:

„Ljóst má vera að sérþekking, reynsla og þjálfun einstakra starfsmanna Ratsjárstofnunar kann að vera afar mikilvæg fyrir framtíðarrekstur íslenska loftvarnakerfisins. Fastlega má gera ráð fyrir að leitað verði eftir starfskröftum margra núverandi starfsmanna að endurskipulagningu lokinni og því afar mikilsvert að staðið verði vel að þessu ferli og leitað eftir góðu samráði við starfsmenn og stéttarfélög þeirra þar sem það á við.“

Vegna uppsagnanna sé þegar hafið samráð við starfsmenn stofnunarinnar á grundvelli laga um hópuppsagnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert