Umhverfisráðherra hafnar veglagningu um Grunnafjörð

Margar fuglategundir treysta á Grunnafjörð á veturna og má þar …
Margar fuglategundir treysta á Grunnafjörð á veturna og má þar meðal annars nefna tjaldinn mbl.is/Frikki

Umhverfisráðherra hefur synjað staðfestingu á þeim hluta aðalskipulags Leirár- og Melahrepps er varðar vegalagningu yfir Grunnafjörð en staðfestir það að öðru leyti.

Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun höfðu áður lagst gegn því að þessi hluti skipulagsins yrði staðfestur þar sem Grunnafjörður er friðlýst svæði og allt jarðrask á friðlandinu óheimilt. Grunnafjörður er talinn eitt mikilvægasta votlendissvæði Íslands og eitt af þremur svæðum á landinu sem tilkynnt hefur verið til alþjóðlegrar skrár um verndun votlendis sem komið var á fót á grundvelli Ramsar-samþykktarinnar um votlendi sem hafa alþjóðlegt gildi, einkum fyrir fuglalíf, að því er segir á vef umhverfisráðuneytisins.

„Í ljósi þessa telur umhverfisráðherra ekki unnt að staðfesta þann hluta skipulagstillögunnar er varðar fyrirhugaða veglínu yfir Grunnafjörð. Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum er aðalskipulag, eða breyting á því, háð staðfestingu umhverfisráðherra.

Grunnafjörður var gerður að friðlandi árið 1994 og samþykktur sem Ramsarsvæði 1996. Víðlendar leirur eru í firðinum og má segja að hann sé frekar leirulón en eiginlegur fjörður. Margir vaðfuglar, svo sem sendlingur, lóuþræll, sandlóa og tjaldur, byggja tilveru sína á lífríki leiranna. Þá halda margir æðarfuglar til í firðinum og um fjórðungur margæsastofnsins hefur viðkomu þar á ferðum sínum frá meginlandi Evrópu til heimskautasvæðanna. Margar fuglategundir treysta á Grunnafjörð á veturna og má þar meðal annars nefna tjaldinn," samkvæmt vef umhverfisráðuneytisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert