Valdbeitingin var fullkomlega óþörf

Eftir Heiðu Björk Vigfúsdóttur - heida@bladid.net

Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður telur að nóg hefði verið fyrir lögregluna á Selfossi að ákæra konu þar í stað þess að þvinga þvaglegg upp í blöðru hennar án samþykkis hennar í mars síðastliðnum. Valdbeitingin hafi verið fullkomlega óþörf. Í 102. grein umferðarlaga stendur að neiti einstaklingar að veita sýni leiði það til ökuleyfissviptingar.

Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Selfossi, segir að það hafi ekki tíðkast hjá lögregluembættinu á Selfossi að grípa til ákvæðisins.

„Það er alvarlegt mál að aka fullur og ber lögreglu að rannsaka málið með tilliti til þess að leiða í ljós hvað átti sér stað. Það hefur margoft gerst hjá okkur að settur hafi verið upp þvagleggur hjá karlmönnum. Ég minnist þess hins vegar ekki að áður hafi þurft að setja upp þvaglegg hjá kvenmanni. Ég kannast ekki við það að nokkur karlmannanna hafi talið að um kynferðislega áreitni hafi verið að ræða."

Hreiðar Eiríksson, fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður á Akureyri, segir að á sínum tuttugu ára starfsferli hafi hann aldrei áður heyrt af því að þvagleggur hafi verið settur upp með valdi.

„Ég get staðfest að það var óvanalega langt gengið og tíðkast ekki í öðrum lögregluumdæmum. Í þeim tilvikum sem ég veit af þá er talað um fyrir fólki og síðan er náttúrlega beðið eftir því að viðkomandi þurfi að losa þvag. Ég hef aldrei heyrt um að nokkrum manni hafi dottið í hug að framkvæma svona."

Nánar í Blaðinu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert