Viðeyjarstofa böðuð bleiku ljósi

Viðeyjarstofa var böðuð bleiku ljósi í kvöld.
Viðeyjarstofa var böðuð bleiku ljósi í kvöld. mbl.is/Kristinn

Viðeyjarstofa og Viðeyjarkirkja við Reykjavík eru nú baðaðar bleiku ljósi sem Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri kveikti á fyrir skömmu. Húsin verða lýst með bleiku ljósi næsta mánuðinn, en það er liður í að vekja athygli á brjóstakrabbameini hér á landi. Þetta er hluti af alþjóðlegu árveknisátaki, upphaflega að frumkvæði Estée Lauder, en bleik slaufa er tákn átaksins.

Þetta er áttunda árið í röð sem slíkt átak er gert, Hallgrímskirkja var lýst upp í október 2001, Perlan 2002, Stjórnarráðshúsið 2003, Ráðhúsið í Reykjavík 2004, Bessastaðir 2005 og Höfði 2006.

Bleik lýsing verður einnig sýnileg annars staðar á landinu í byrjun október, m.a. á Akranesi, á Grundarfirði, í Stykkishólmi, á Ísafirði og á Húsavík.

Í fréttatilkynningu frá Krabbameinsfélaginu segir að nú í október verði lögð áhersla á að selja bleikar slaufur og að afraksturinn verði notaður til að kaupa nýtt ómtæki fyrir Leitarstöð Krabbameinsfélagsins. Ómtækið verður notað til nánari greiningar eftir brjóstamyndatökur og við frumrannsókn á brjóstum hjá ungum konum með einkenni.

Ár hvert greinast um 175 íslenskar konur með brjóstakrabbamein. Samkvæmt útreikningum frá Krabbameinsskránni getur tíunda hver kona búist við að fá brjóstakrabbamein. Fjöldi nýrra tilfella hefur verið að aukast en lífshorfurnar hafa einnig batnað mikið. Um helmingur kvenna sem greindust með brjóstakrabbamein fyrir fjörutíu árum lifðu í fimm ár eða lengur en nú geta um 90% vænst þess að lifa svo lengi. Nú eru á lífi um 2000 konur sem fengið hafa brjóstakrabbamein.

Hér á landi eru konur boðaðar til brjóstamyndatöku annað hvert ár á aldrinum frá 40 til 69 ára. Konur sem eru eldri eru einnig velkomnar og geta pantað myndatöku. Erlendar rannsóknir benda til þess að með því að taka röntgenmyndir reglulega af brjóstum kvenna megi lækka dánartíðni verulega vegna krabbameins í brjóstum.

Ýmsar gagnlegar upplýsingar um brjóstakrabbamein og árveknisátakið má finna á vefnum bleikaslaufan.is .

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert