Björgólfur segist ekki hafa

Björgólfur Guðmundsson, formaður bankaráðs Landsbankans, segist ekki hafa haft nein afskipti af sameiningu Reykjavik Energy Invest og Geysis Green Energy og ekki vitað um hana fyrr en tilkynnt var um hana í fjölmiðlum. DV segir í dag, að Björgólfur hafi þrýst á Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóra að flýta sameiningunni til að laga fjárhagsstöðu Hannesar Smárasonar, forstjóra FL Group, gagnvart bankanum.

Yfirlýsingin er eftirfarandi:

    DV greinir í dag frá orðrómi um að Björgólfur Guðmundsson, formaður bankaráðs Landsbankans, hafi þrýst á Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóra, um að flýta samningum um sameiningu Reykjavík Energy Invest og Geysir Green Energy til þess að laga "... fjárhagsstöðu Hannesar gagnvart bankanum" eins og segir í blaðinu en Hannes Smárason er forstjóri FL Group sem er einn af stærstu hluthöfum í Geysir Green Energy.

    Af þessu tilefni vill Björgólfur Guðmundsson taka fram að aðdróttanir DV um afskipti hans að máli þessu eru algjörlega útí hött. Björgólfur hafði enga vitneskju um sameiningu Reykavík Energy Invest og Geysir Green Energy fyrr en tilkynnt var um hana í fjölmiðlum.

    Vinnubrögð DV í máli þessu eru vítaverð þar sem blaðið leitaði hvorki til Landsbankans né skrifstofu Björgólfs Guðmundssonar áður en blaðið birti ósannindi sem geta skaðað orðspor og hagsmuni Landsbankans og Björgólfs Guðmundssonar bæði hér heima og erlendis en bankinn er undir ströngu eftirliti fjármálayfirvalda í hverju því landi sem hann starfar auk alþjóðlegra matsfyrirtækja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert