Katrín: Lýðræðisleg umræða að skila sér

Ráðhús Reykjavíkur
Ráðhús Reykjavíkur mbl.is/Sverrir
Eftir Sigrúnu Birnu Birnisdóttur

Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstrihreyfingarinnar Græns framboðs, segir slit meirihlutasamstarfs Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Reykjavík vera mikil tíðindi og hún bindi miklar vonir við þann nýja meirihluta sem kynntur hafi verið í dag. „Það sem mér finnst eiginlega einna merkilegast í þessu er sá aðdragandi sem þetta hefur átt á undanförnum dögum," sagði hún er blaðamaður mbl.is ræddi við hana í kvöld.

„Þetta hefur greinilega gerst mjög hratt og mér finnst athyglisvert að þetta fylgir allt í kjölfar umræðu sem okkar fulltrúi í borgarstjórn opnaði. Það finnst mér bera vott um það að lýðræðisleg umræða sé að skila sér," sagði hún.

Katrín segist vænta mikils af þessu nýja samstarfi. Það sé í raun óskrifað blað en hún treysti því að það verði byggt á hugmyndum félagshyggju og umhverfisverndar.

Þá sagði hún ákvarðanavald í málinu alfarið hafa legið hjá borgarstjórnarflokki Vinstri grænna en að hún hafi þó fylgst með gangi málsins. Hún hafi hins vegar ekki haft bein áhrif á það enda treysti hún borgarfulltrúum flokksins fullkomlega í málinu. Þá verði hið nýja samstarf borið undir félagsfund flokksins í Reykjavík sem þegar hafi verið boðaður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert