Meirihluti styður ákvörðun um að gefa ekki út hvalveiðikvóta

Hvalur skorinn í Hvalfirði á síðasta ári.
Hvalur skorinn í Hvalfirði á síðasta ári. mbl.is/Ómar

Samkvæmt niðurstöðu skoðanakönnunar, sem Capacent Gallup hefur gert fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands og International Fund for Animal Welfare (IFAW), eru 66,3% landsmanna sammála þeirri ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar, sjávarútvegsráðherra, að ekki gefa út veiðikvóta vegna atvinnuhvalveiða fyrr en markaðsaðstæður fyrir hvalkjöt hafa batnað.

Í könnuninni, sem birt er á heimasíðu Náttúruverndarsamtakanna, kemur fram að 22,6% aðspurðra lýstu sig ósammála ákvörðun sjávarútvegsráðherra og 11,1% tóku ekki afstöðu.

Heldur meiri stuðningur kom fram við ákvörðun ráðherra meðal íbúa á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni og einnig meðal elstu aldurshópanna, sem tóku þátt.

Náttúruverndarsamtökin segja, að niðurstöðurnar séu til marks um að mikill meirihluti almennings telur að markaður fyrir hvalkjöt sé ekki fyrir hendi og því tilgangslaust að halda áfram hvalveiðum.

Könnunin var símakönnun, gerð 3.-16. október. Upphaflegt úrtak var 1350 manns á aldrinum 16-75 ára og endanlegt svarhlutfall var 61,8%.

Könnunin í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert