Ný vél í Hellisheiðarvirkjun á að spara OR 700 milljónir árlega

Bryndís Hlöðversdóttir, stjórnarformaður OR, og Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra við gagnsetningu …
Bryndís Hlöðversdóttir, stjórnarformaður OR, og Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra við gagnsetningu vélarinnar í dag. mbl.is/Ómar

Orkuveita Reykjavíkur tók í dag formlega í notkun nýja aflvél í Hellisheiðarvirkjun, sem mun spara fyrirtækinu 700 milljónir króna árlega í raforkukaupum fyrir almennan markað, að því er segir í fréttatilkynningu frá OR síðdegis.

Vélin er af nýrri gerð, s.k. lágþrýstivél, og nýtir skiljuvatn sem ekki er hægt að nýta í háþrýstihverflunum tveimur, sem þegar hafa verið teknar í notkun í virkjuninni. Þetta er fyrsta vél þessarar gerðar sem tekin er í notkun í íslenskri jarðhitanýtingu.

Samhliða því að nýja aflvélin var ræst í dag, var nýtt kynningarrými Hellisheiðarvirkjunar tekið formlega í notkun. Þar gefur að líta margvíslegt fræðsluefni um nýtingu jarðhitans hér á landi og vinnsluferli Hellisheiðarvirkjunar. Mikil eftirspurn hefur verið eftir heimsóknum í virkjunina, hvorttveggja af hálfu Íslendinga og útlendinga. Ræðst það ekki síst af miklum áhuga víða um heim á að nýta jarðhita til raforkuframleiðslu og vilja gestir gjarna kynna sér á Hellisheiðinni það sem nýjast er í þeim efnum. Móttakan er opin alla daga frá kl. 9:00 til 18:00.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert