Tillaga um að lækka fasteignaskatt felld

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram tillögu um að á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í dag, að álagningarstuðull fasteignaskatta verði lækkaður um 5%, eða úr 0,225% af fasteignamati, í 0,215%. Tillagan var felld með 8 atkvæðum gegn 7.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna, sagði þegar hann mælti fyrir tillögunni, að mikilvægt væri að haldið verði áfram þeirri stefnumörkun, sem ákveðin var í upphafi kjörtímabilsins, að fasteignaskattar á íbúðarhúsnæði verði lækkaðir um samtals 25%. Á þessu ári hafi fasteignaskattarnir verið lækkaðir um 10% og til stóð að lækka þá um 5% á ári næstu 3 ár. Nú sé útlit fyrir að fasteignamat muni hækka um 10% og því væri verið að auka álögur á borgarbúa með því að hafa skatthlutfallið óbreytt.

Þegar Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, spurði um kostnað og tillögur yrðu um niðurskurð útgjalda á móti, svaraði Vilhjálmur að áætlað væri að tekjutap borgarinnar yrði 150-160 milljónir. Hann benti á, að í nýrri fjárhagsáætlun væri gert ráð fyrir 270 milljónum króna til aðgerða í húsnæðismálum og lækkunin rúmaðist vel þar.

Dagur sagði, að þessar 270 milljónir væru ætlaðar til sérstakra aðgerða í húsnæðismálum fyrir þá sem verst standa. Spurði hann hvort taka ætti skerðingu á þeim lið af þeim hópum, sem verst stæðu í samfélaginu á sama tíma og lækkun fasteignaskatta kæmi þeim best, sem ættu dýrustu eignirnar.

Vilhjálmur sagði, að Dagur væri með þessu að segja, að útsvar eða aðrir skattar yrðu ekki lækkaðir á meðan núverandi meirihluti væri við völd því það komi best við þá sem hafi hæstar tekjurnar. Dagur sagði á móti, að Vilhjálmur væri að saga undan sér greinina sem hann sæti á.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert