Vilja hærri daggjöld til hjúkrunarheimila

Aðstandendafélag heimilisfólks á hjúkrunarheimilinu Skjóli hvetur til þess að í annarri umræðu fjárlaga hækki Alþingi daggjöld til hjúkrunarheimila til muna frá því sem nú er og átak verði gert nú þegar til þess að útrýma margbýlum á heimilunum. Þetta var samþykkt á aðalfundi félagsins í gærkvöldi.

„Óþarft ætti að vera að benda á þann mikla skort sem er á hjúkrunarheimilum á höfuðborgarsvæðinu og biðlistana eftir plássum. Sögur af þrautagöngu fólks með sína nánustu þekkja allir. Við leggjum áherslu á að biðlistunum verði útrýmt. Á Skjóli eru 99 heimilismenn og búa þar af 42 í tvíbýli, allt fólk ókunnugt hvort öðru. Þessi vandamál verður að leysa.

Mönnun á hjúkrunarheimilum er ekki næg og auka þarf faglegt starf á borð við sjúkra- og iðjuþjálfun. Hækka þarf daggjöld. Við leggjum ennfremur ríka áherslu á að laun starfsfólks verði hækkað og starf þess metið að verðleikum, svo sem með því að kostur sé á að mennta sig samhliða starfi.

Við lítum svo á að þetta æviskeið aðstandenda okkar, sem búa nú á hjúkrunarheimili, sé ekki minna virði en önnur tímabil ævinnar. Þau eiga sama rétt til lífsgæða og aðrir aldurshópar. Við viljum að það sé virt af stjórnvöldum. Í framlögðum fjárlögum sjáum við ekki merki um að staðið verði við loforð sem gefin voru fyrir kosningar í vor og allir flokkar voru sammála um, en viljum að úr því verði bætt hér og nú.

Við hvetjum aðstandendur á öðrum hjúkrunarheimilum til þess að stofna aðstandendafélög. Þau eru mikilvægur vettvangur í baráttumálum heimilisfólks og aðstandenda okkar. Aðstandendur geta og munu í framtíðinni eiga ríkan þátt í því að gera hjúkrunarheimilin betri og það er markmið okkar félags," að því er segir í ályktun aðalfundarins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert