Byggingu álversins í Reyðarfirði lokið

Álverið í Reyðarfirði.
Álverið í Reyðarfirði.

Byggingu álvers Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði er lokið og voru framkvæmdir á áætlun. Af því tilefni undirrituðu fulltrúar Alcoa og Bechtel formlega yfirlýsingu um lok framkvæmda í nýrri starfsmannabyggingu Fjarðaáls við álverið í Reyðarfirði í dag. Ekkert alvarlegt slys varð á meðan á framkvæmdum stóð.

Bechtel og íslenski verkfræðihópurinn HRV sáu um að hanna og reisa álverið, en þetta er stærsta einkaframkvæmd sem ráðist hefur verið í á Íslandi. Fyrsta skóflustungan að álverinu var tekin 8. júlí 2004.

Framleiðsla í nýju álveri Fjarðaáls hófst í apríl síðastliðnum og það var opnað formlega með mikilli hátíð á Reyðarfirði 9. júní í sumar. Stefnt er að því að það nái fullum afköstum á fyrsta fjórðungi næsta árs.

Þegar framkvæmdir náðu hámarki síðastliðinn vetur störfuðu við þær rúmlega 2000 manns. Flestir starfsmenn Bechtel sem starfað hafa við bygginguna hafa komið frá Póllandi, en fólk frá alls 23 löndum hefur lagt þar hönd á plóg.

Í tilkynningu frá Alcoa Fjarðaáli er haft eftir Warren McKenzie, verkefnisstjóra framkvæmdanna, að fyrritækið væri afar stolt af því verki sem þarna hefði verið unnið. Ýtrustu kröfum um öryggi og umhverfisvernd hefði verið fylgt í hvívetna og framkvæmdin sé þegar orðin fyrirmynd að því hvernig byggja skuli álver um allan heim. Hönnunar- og byggingateymin hafi staðið sig frábærlega í þessum framkvæmdum öllum og  byggt eitt fullkomnasta og umhverfisvænasta álver í heimi í Reyðarfirði.

Í bygginguna hafa farið um 182.000 rúmmetrar af steinsteypu, sem myndi nægja til að fylla Laugardalslaug 33 sinnum. Heildarflatarmál þak- og veggklæðinga er á borð við 40 fótboltavelli, eða alls um 310.000 fermetrar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert