Landspítalinn hyggst ráðast í sex mánaða tilraunaverkefni um ritun sjúkraskráa utan sjúkrahússins. Verði árangurinn góður verður verkefnið boðið út.
„Ástæðan er annars vegar skelfileg húsnæðisþrengsl og hins vegar viljum við kanna hvort við fáum þetta á skilvirkari hátt og á hagkvæmari kjörum en ef við gerum þetta sjálf," segir Niels Christian Nielsen aðstoðarlækningaforstjóri sem bætir því við að sjálfstætt starfandi sérfræðingar leiti til ritara sem starfa sjálfstætt um ritun sjúkraskráa.
Nú starfa á annað hundrað læknaritarar á Landspítalanum, að sögn Niels. „Ég geri ráð fyrir því að þeir sem missa vinnu hjá okkur verði ráðnir annars staðar ef til þess kemur. Það er ekki eins og menn hlaupi inn á næstu ráðningastofu og fái læknaritara með full réttindi."
Niels segir að gerðar verði mjög strangar kröfur um öryggi varðandi ritun sjúkraskránna.