Árni segist munu skila ítarlegum rökstuðningi

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, sagði í fréttum Útvarpsins, að hann muni skila ítarlegum rökstuðningi vegna umdeildrar skipunar hans á Þorsteini Davíðssyni embætti héraðsdómara, óski aðrir umsækjendur um stöðuna eftir því.  

Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sagði í gær að Árni, sem var settur dómsmálaráðherra í málinu, ætti að rökstyðja betur val sitt á héraðsdómara. Slíkt væri nauðsynlegt þar sem valið hefði gengið algjörlega gegn mati nefndar sem metur hæfi þeirra sem sækja um dómarastöður.

Útvarpið hafði eftir Árna í dag, að  greinilegt væri að mat hans á reynslu Þorsteins úr dómsmálaráðuneytinu væri annað en mat nefndarinnar. Í slíkum tilvikum bæri honum að fara eftir eigin mati. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert