Tillagna nefndar um úrbætur í húsnæðismálum að vænta

Gert er ráð fyrir að nefnd félagsmálaráðherra um úrbætur í húsnæðismálum skili af sér skýrslu og tillögum á næstu dögum. Fundur átti að vera í nefndinni nú á föstudaginn, en honum var frestað án þess að nýr fundur væri tímasettur.

Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samiðnar, sambands iðnfélaga, sem situr í nefndinni fyrir hönd Alþýðusambands Íslands, segist telja að efnislegt samkomulag sé í nefndinni. Fyrir jól hafi fulltrúi fjármálaráðuneytisins hins vegar óskað eftir að efnisatriði skýrslunnar yrðu betur kostnaðarmetin og það hafi ekki tekist fyrir áramót. Fundur hafi verið ráðgerður nú á föstudag til að ganga frá skýrslunni, en honum hafi verið frestað. Nýr fundur hafi ekki verið boðaður en hann hljóti að verða í næstu viku.

Óþolinmóðir

„Það er alveg klárt mál að við í Alþýðusambandinu erum orðnir mjög óþolinmóðir eftir að skýrslan verði lögð fram svo hægt sé að taka næstu skref,“ sagði Þorbjörn.

Upphaflega lagði félagsmálaráðherra fyrir nefndina að hún skilaði af sér tillögum 1. nóvember en hún var sett á laggirnar í síðari hluta ágústmánaðar í sumar. Verkefni nefndarinnar er að móta tillögur sem miða að því að efla hinn félagslega þátt húsnæðislánakerfisins, þar með talinn leigumarkaðinn, og lánveitingar til fólks undir skilgreindum eigna- og tekjumörkum. Jafnframt þurfi að skilja með skýrari hætti á milli almennra og félagslegra lánveitinga og er hlutverk nefndarinnar meðal annars að tryggja aðgengi að lánsfé fyrir þá sem eru að kaupa húsnæði í fyrsta sinn, íbúa á landsbyggðinni og lágtekjufólk.

Í nefndinni eiga sæti fulltrúar félagsmála- og fjármálaráðuneytis, Reykjavíkurborgar, Sambands sveitarfélaga, Alþýðusambandsins, Samtaka atvinnulífsins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja.

Fram hefur komið að alls eru um 2.750 manns í landinu öllu á biðlistum eftir félagslegu húsnæði, tæplega 1.500 hjá sveitarfélögum og 1.100 bíða eftir námsmannaíbúð. Um 70% þeirra eru með heildartekjur lægri en 150 þús. kr. á mán.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert