Ráðherra bíður næsta skrefs

Laugavegur 4-6.
Laugavegur 4-6. mbl.is/Frikki

„Það er öllum ljóst sem hafa fylgst með þessu ferli að það er ekki ólíklegt að þetta lendi inni á borði hjá mér," segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra aðspurð um það hvort hún muni taka á máli húsanna við Laugaveg 4 til 6 í Reykjavík með svipuðum hætti og hún gerði þegar hún friðaði húsin við Hafnarstræti 94 til 98 á Akureyri í nóvember.

„Á hin bóginn verður Húsafriðunarnefnd, og ekki síst sveitarfélagið Reykjavík, að klára þetta af sinni hálfu áður en þetta kemur formlega inn á mitt borð og þá mun ég að sjálfsögðu ekki skorast undan því að taka ákvörðun," bætir hún við. Þorgerður segist ekki geta tjáð sig efnislega um málið fyrr en það hefur borist henni formlega.

„Mér finnst að sveitarfélögin eigi að klára svona mál. Það verður að hafa í huga að menningararfurinn er með ýmsu móti og hann er okkur dýrmætur og það bera allir ábyrgð á honum, ekki bara ríkið," segir Þorgerður og bætir við: "Það er alveg ljóst að þessi meirihluti talar út og suður miðað við það sem ég hef séð í fréttum. Þau verða hins vegar að reyna að klóra sig út úr því, en ég er ekki viss um að þau geri það."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert