Ætlaði að fela fíkniefnin á sumarbústaðarlandi

Skútan, sem notuð var við smygltilraunina, við hlið varðskips í …
Skútan, sem notuð var við smygltilraunina, við hlið varðskips í Fáskrúðsfirði. mbl.is/Helgi Garðarsson

27 ára gamall karlmaður er talinn hafa skipulagt tilraun til að smygla 23,5 kílóum af amfetamíni, tæpum 14 kílóum af e-töfludufti og 1747 e-töflum til landsins í haust en efnin voru flutt yfir Atlantshaf með skútu, sem lagðist að bryggju í Fáskrúðsfirði 20. september.

Alls hafa sex karlmenn verið ákærðir hér á landi fyrir aðild að málinu. Fram kemur í ákæru ríkissaksóknara, sem verður þingfest á föstudag, að einn mannanna, sem er  átti að taka við fíkniefnunum en hann ætlaði að fela þau á sumarbústaðarlandi í Rangárvallasýslu.

Í ákærunni kemur fram, að höfuðpaurinn hafi skipulagt innflutning fíkniefnanna og sagt hinum fyrir verkum en hann fékk þá til að búa um efnin, flytja þau og taka á móti þeim og geyma. Maðurinn afhenti tveimur mönnum á þrítugsaldri efnin í Hanstholm í Danmörku í byrjun september og þeir fluttu þau síðan til Fáskrúðsfjarðar með skútu, sem þeir tóku á leigu í Noregi. Skútan kom á leiðinni við á Hjaltlandseyjum og í Færeyjum.

Einn mannanna, sem er á fertugsaldri, er ákærður fyrir að sjá um að búa um fíkniefnin í íbúð í Kaupmannahöfn í ágúst. Hann keypti í byggingavöruverslun þar í borg vörur, sem notaðar voru til verksins.

Þá er einn úr hópnum ákærður fyrir að hafa tekið að sér að veita fíkniefnunum móttöku á Fáskrúðsfirði eftir að skútan kom þangað. Hann ætlaði  einnig að láta skútumennina tvo fá vistir og olíu til að þeir gætu siglt skútunni frá Íslandi aftur en sá varningur var í bíl mannsins þegar hann var handtekinn á Fáskrúðsfirði.

Fimm af mönnunum sex hafa setið í gæsluvarðhaldi frá því málið kom upp í september. Einn maður til viðbótar var handtekinn í Færeyjum og er þar í varðhaldi. Allir eru mennirnir Íslendingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert