Dómnefnd mat alla umsækjendur hæfa

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag að matsnefnd, sem fjallaði um umsækjendur um héraðsdómaraembætti nýlega, hefði metið þá alla hæfa en þrjá hæfari. Sagðist Geir telja, settur dómsmálaráðherra hefði ekki getað skipað umsækjenda, sem dómnefndin mæti ekki hæfan í starfið.

Málið kom til umræðu í fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun en þar gerði Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, að umtalsefni nýlega ályktun Dómarafélagsins um skipun í embætti héraðsdómara á Norðurlandi eystra og Austurlandi. Sagði Árni Þór, að ekki væri annað að sjá en að Dómarafélagið rassskelli settan dómsmálaráðherra þótt það væri gert með penum hætti, og leiddi í ljós, að ráðherrann hefði ekki fylgt þeim eðlilegu leikreglum taka fullt tillit til umsagnar nefndar.

Árni sagði að Árni M. Mathiesen, settur dómsmálaráðherra í málinu, hefði verið með fjálglegar yfirlýsingar um að hann hafi í raun verið betur í stakk búinn að meta hæfni umsækjenda en nefndin. Vildi Árni Þór fá upplýsingar um það hjá forsætisráðherra hvenær ráðherrann hefði fengið málið til meðferðar, hvað skoðun hans á málinu hefði verið löng, hvenær umsækjendur fengu umsögn dómnefndar í hendur og hversu langan tíma hefðu umsækjendur til að bregðast við.

Geir sagði, að þingmaðurinn gæti ekki ætlast til þess að hann hefði á takteinum nákvæmar dagsetningar en þetta hefði allt gerst upp úr miðjum desember. Sagði Geir að tveir af umsækjendunum hefðu óskað áliti umboðsmanns Alþingis á embættisveitingunni og það væri í vinnslu,.

Geir sagði, að það kerfi væri hér, að fulltrúi framkvæmdavaldsins skipaði dómara. Umrædd matsnefnd hefði skilað álit og metið umsækjendurna fimm hæfa en þrjá þeirra hæfari. Sagðist Geir telja, að ráðherra hefði ekki getað skipað einstakling, sem matsnefndin hefði metið óhæfan til starfans.

Árni Þór sagði, að völd ráðherrans væru takmörkuð og það hefði verið hugsunin þegar ákvæði um matsnefndina var sett í lög. Sagði Árni Þór, að sjálfstæði dómstólanna væri stefnt í voða þegar ekki séu skipaðir þeir dómarar, sem taldir eru hæfastir. Það dragi úr tiltrú almennings og grafi undan dómstólunum.

Geir spurði hvernig það gæti veikt sjálfstæði dómstólanna, að skipa mann, sem matsnefnd hefði metið hæfan. Ráðherrann hefði skipað mann sem dómnefndin taldi hæfan og ráðherrann taldi hæfastan til að gegna embættinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert