Ekki hægt að útiloka lögbundinn kynjakvóta

Björgvin G. Sigurðsson í góðum félagsskap á ráðstefnunni í dag.
Björgvin G. Sigurðsson í góðum félagsskap á ráðstefnunni í dag. mbl.is/Golli

„Ef kynjahlutfall í stjórnum fyrirtækja helst óbreytt þarf alvarlega að íhuga norsku leiðina," segir Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra. „Æskilegast er að fyrirtækin sýni frumkvæði og jafni hlutföllin sjálf, en ég er sannfærður um að afskipti löggjafans eigi alls ekki að útiloka ef annað virkar ekki."

Norska leiðin vísar í lög um að stjórnir hlutafélaga í Noregi skulu hafa minnst 40% að hvoru kyni innanborðs. Nú eru 42% stjórnarmeðlima í norskum hlutafélögum konur, sem er langhæsta hlutfall í heiminum.

Þetta kom fram í máli ráðherra á fundi sem Félag kvenna í atvinnurekstri (FKA) og LeiðtogaAuður boðuðu til í dag. Um 80 manns sátu fundinn en fyrir utan ráðherrann var aðeins einn karlmaður viðstaddur.

Björgvin sagði, að áður en gripið yrði til slíkra leiða myndi ráðuneytið beita sér fyrir virkri umræðu til að skapa þrýsting á fyrirtæki til að jafna stöðu kynjanna í stjórnum. Fyrirtæki gætu ekki sniðgengið þessa sjálfsögðu kröfu, þau yrðu að bregðast hratt við því það eina sem væri viðunandi væri gagnger breyting á næstu tveimur árum.

Ríkið gangi á undan með góðu fordæmi
Tanya Zharov, fundarstjóri kynnti ýmsar niðurstöður um stöðu kvenna í fyrirtækjum. Nú eru aðeins 8% stjórnarsæta 100 stærstu fyrirtækja landsins skipuð konum og aðeins þrír af hundrað stjórnarformönnum eru konur.

Auk þess er hallar talsvert á konur í stjórnum lífeyrissjóða, t.d. eru aðeins 11% stjórnarmeðlima í Almenna lífeyrissjóðinum konur og aðeins 20% í Íslenska lífeyrissjóðnum. Mikilvægi lífeyrissjóðanna felst m.a. í gífurlegum eignum sem þeir ráða yfir.

Athygli var vakin á niðurstöðum CreditInfo sem sýnir að fyrirtæki með konur innan stjórnar lenda mun síður í vanskilum en fyrirtæki án kvenna í stjórn. Auk þess sé margviðurkennt óhagræði fólgið í því að útiloka konur, helming mannauðsins, frá viðskiptalífinu.

Þá hallar enn talsvert á konur í ráðuneytum og nefndum ríkisins.

Í umræðum að loknu erindi ráðherra var kallað eftir aðgerðaáætlun frá ráðherra og því að ríkið gengi fyrir með góðu fordæmi við skipanir í nefndir og störf. Þá gætu konur haft mikil áhrif með því að beina viðskiptum sínum til fyrirtækja með jafnara hlutfall.

Ekki voru fundargestir á eitt sáttir um kynjakvóta. Svava Johansen, forstjóri NTC, kvaðst vera mótfallin þvingunum af því tagi. Ingvi Hrafn Jónsson, eini karlkyns fundargesturinn, sagðist vera gömul karlremba og sagði að lagasetning væri eina leiðin til að breyta stöðunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert