Heyrði hálsinn brotna

Víðir Freyr Guðmundsson.
Víðir Freyr Guðmundsson. Árvakur/Frikki

„Ég er kallaður Víðir heppni hérna á deildinni, því ég er ótrúlega heppinn að vera enn á lífi og hafa ekki lamast alvarlega,“ segir Víðir Freyr Guðmundsson, 27 ára Ölfusingur, sem hálsbrotnaði í sundlauginni á Flúðum á laugardagskvöldið. Víðir liggur á æðaskurðdeild Landspítalans í Fossvogi.

Víðir Freyr var í skemmtiferð ásamt nokkrum vinnufélögum sínum og eftir að hafa eytt dágóðum tíma í heitum potti sundlaugarinnar ákváðu nokkrir þeirra að kæla sig með sundspretti í lauginni.

„Ég sá hvergi merkingu þar sem varað var við að stinga sér í laugina vegna þess að hún væri grunn. Ég man eftir að hafa stungið mér í laugina og fundið smell í hálsinum, en svo man ég ekki eftir mér fyrr en félagi minn hélt við höfuðið á mér og hjálpaði mér upp úr lauginni og fylgdi mér í búningsklefann.“

Hryggjarliður ofarlega í baki Víðis Freys klofnaði við höggið en auk þess fékk hann skurð á höfuðið og heilahristing.

„Ég gat ekki haldið hausnum uppi og félagi minn hjálpaði mér að halda við hann. Ég missti meðvitund um tíma og kastaði upp út af höfuðhögginu.“

Starfsmaður sundlaugarinnar kallaði til sjúkrabíl en Víðir segir ferðina á sjúkrahúsið hafa verið óskemmtilega. „Það var þvílík ófærð og blindbylur og bíllinn hristist mikið á leiðinni sem var mjög óþægilegt. Ég var auðvitað dauðhræddur en sjúkraflutningamennirnir stóðu sig ótrúlega vel.“

Það er kraftaverki líkast að Víðir hafi sloppið við mænuskaða vegna slyssins, en hann reiknar með að ná fullum bata eftir mikla endurhæfingu. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Víðir slasast alvarlega. Árið 1998 lenti hann tvívegis í alvarlegum bílslysum en í öðru þeirra lét vinur hans lífið.

„Ég er ótrúlega heppinn að vera á lífi eftir allt það sem á undan er gengið. Það hefur verið sagt að ég sé með níu líf eins og kötturinn en ætli þeim sé ekki farið að fækka verulega.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert