Hagkvæmt að bólusetja við leghálskrabbameini

Embætti sóttvarnalæknis áætlar, að með því að bólusetja  einn árgang 12 ára gamalla stúlkna megi árlega koma í veg fyrir leghálskrabbamein
hjá a.m.k níu konum og tæplega tvö dauðsföll. Samkvæmt erlendum stöðlum virðist bólusetning 12 ára stúlkna gegn þessum sjúkdómi vera hagkvæm.

Á Íslandi greinast um 17 konur árlega með leghálskrabbamein. Meðalaldur þeirra er 45 ár og á fimm árum eftir greiningu deyja um 20% þeirra.  Vitað er að vörtuveirur  geta valdið leghálskrabbameini og eru vissar gerðir þeirra taldar frumorsök slíks krabbameins. Um þessar mundir eru á markaði tvö bóluefni gegn þeim stofnum veirunnar sem oftast valda krabbameini.

Sóttvarnaráð hefur fjallað um fýsileika þess að hefja bólusetningu gegn vörtuveirusmiti og leghálskrabbameini. Mælir ráðið með því að almenn bólusetning verði hafin meðal 12 ára stúlkna hér á landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert