Kumbaravogsbörn vilja rannsókn sem fyrst

„Af lestri skýrslunnar sést að hún er afar vel unnin og greinilega mikil undirbúningsvinna að baki. En þeirri vinnu er lokið og því fæ ég ekki séð hvers vegna nefndin ætlar að taka sér þrjú ár í að rannsaka önnur vist- og meðferðarheimili," segir Jóhanna Guðrún Agnarsdóttir, sem dvaldi í tíu ár á „fjölskylduheimilinu" í Kumbaravogi, um yfirlýsingu forsætisráðherra á föstudag þess efnis að Breiðavíkurnefndinni svonefndu hafi verið falið að fjalla um önnur vist- og meðferðarheimili og ráðgert sé að sú vinna geti tekið um þrjú ár.

Alls voru fjórtán börn í varanlegri vistun á heimilinu á fyrri starfstíma þess, frá 1945 til 1957, og var Jóhanna og tvö systkini hennar á meðal þeirra. Hún segir uppeldisaðferðir á heimilinu hafa verið frumstæðar og einkennst af ströngum aga og mikilli vinnu. Aukinheldur gekk þar laus barnaníðingur sem nýtti sér bágborið sálarástand drengja á heimilinu. Sá hefur játað gjörðir sínar en var ekki ákærður þar sem brot hans eru fyrnd.

Ósátt við greingargerð
forstjóra Barnaverndarstofu
„Auðvitað vil ég fá afgerandi yfirlýsingu um að Kumbaravogur verði rannsakaður. Í ljósi allra þeirra upplýsinga sem komið hafa fram, t.d. játningarinnar um kynferðisbrot, hlýtur það að vera ofarlega á forgangslistanum,“ segir Jóhanna sem vandar forstöðumanninum ekki kveðjurnar.

Jóhanna óttast að máli Kumbaravogs verði sópað undir teppið og segir yfirlýsingu forsætisráðherra aðeins ýta undir þann ótta. „En vel að merkja þá höfum við Mannréttindadómstól Evrópu og munum ekki hika við að leita þangað ef þörf krefur. Við erum með mikið af gögnum þar sem margt misjafnt kemur fram og munum vissulega beita,“ segir Jóhanna og vísar með orðum sínum til sín og systkina sinna.

Í skýrslu Breiðavíkurnefndarinnar sem kynnt var á föstudag er meðal annars greinargerð eftir Braga Guðbrandsson, forstjóra Barnaverndarstofu, um barnavernd og uppeldisstofnanir. Jóhanna segist afar hneyksluð á því sem þar kemur fram er varðar „fjölskylduheimilið“ í Kumbaravogi, sem bendi til þess að Bragi leggi blessun sína yfir þá starfsemi sem fram fór þar.

Í greinargerðinni segir m.a.: „Hér var líklega um að ræða fyrstu fjölskyldureknu uppeldisstofnunina á Íslandi og var áhersla lögð á kristilegt uppeldi, enda þau hjón mjög trúuð. Í blaðaviðtölum við Kristján [Friðbergsson, forstöðumann heimilisins] frá þessum tíma lagði hann gjarnan áherslu á að um hlýlegt heimili væri að ræða en ekki stofnun. Þetta rekstrarform þykir í dag börnum hagfelldast sem þurfa á langtímameðferð fjarri kynforeldrum sínum að halda.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert