Lögregluvarðstjóri sendir alltaf lögreglumenn á vettvang ef aðstoðarbeiðni berst frá fólki vegna vegna hótana. Er það af og frá að vinnuregla lögreglunnar sé á þann veg að skrifleg kæra þurfi að berast í slíkum málum að sögn Geirs Jóns Þórissonar yfirlögregluþjóns hjá Lögreglu höfuðborgarsvæðisins, vegna atviksins sem varðar Maríu Ellen Guðmundsdóttur vagnstjóra hjá Strætó, og sagt var frá í blaðinu á miðvikudag.
Maríu Ellen var hótað lífláti af manni á bíl sem missti stjórn á skapi sínu í umferðinni að kvöldi 19. febrúar.
Geir Jón bendir á að ekkert í skýrslum sýni að óskað hafi verið eftir lögregluaðstoð vegna hótana. Segir hann að málið hafi fyrst komið upp á yfirborðið þegar vagnstjórinn var stöðvaður í umferðareftirliti fyrir að tala í farsíma án handfrjáls búnaðar.
Þetta hafi verið um kl. 22:30. Við það tækifæri hafi vagnstjórinn þá sagt lögreglumönnunum frá hótunum sem áttu sér stað fyrr um kvöldið, kl. 19:21.
Vagnstjórinn hafði tekið niður númer bílsins og með þær upplýsingar fóru lögreglumennirnir að leita að bílnum og fundu hann ásamt viðkomandi manni, nánar tiltekið farþega bílsins.