1,6 milljarða aukaframlag til skóla- og velferðarmála

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. Morgunblaðið/ Sverrir

1,6 milljörða viðbótarframlagi verður veitt til heimaþjónustu, húsaleigubóta, sérskóla og sérdeilda samkvæmt breytingartillögu meirihlutans í borgarstjórn. Önnur umræða um þriggja ára áætlun Reykjavíkurborgar fer fram í dag.

Í tilkynningu segir að um sé að ræða sérstaka viðbót til skóla- og velferðarmála, sem rík áhersla hafi verið lögð á í málefnasamningi núverandi meirihluta.

Þá segir að til standi að auka framboð á leikskólaplássum verulega með nýjum leikskólum og viðbyggingum við eldri skóla auk þess sem teknar verði upp greiðslur til þeirra foreldra sem bíði eftir niðurgreiddum leikskólaplássum.

Einnig er ætlunin að auka þjónustu við grunnskólanema m.a. með því að bjóða upp á fjölbreyttara skólastarf með meira vali, með því að efla verulega starf sérskóla og sérdeilda auk þess sem frístundaheimili verða opin næsta sumar til reynslu.

Frístundakort verða hækkuð úr 25.000 krónum á ári í 40.000 á næsta ári.

Þá stendur til að auka framlög til velferðarmála, m.a. með byggingu þjónustuíbúða við Sléttuveg og í Spöng, eflingu heimaþjónustu, stuðningsþjónustu á þjónustumiðstöðvum og að húsaleigubótakerfið verði eflt í samvinnu við ríkið.

Fundur borgarstjórnar hófst í ráðhúsi Reykjavíkur klukkan 14, en þar fer m.a. fram síðari umræða um þriggja ára áætlun um rekstur framkvæmdir og fjármál Reykjavíkurborgar árin 2009-2011. °

Þá fer einnig í dag fram umræða um lokaskýrslu stýrihóps borgarráðs um málefni Reykjavík Energy Invest og Orkuveitu Reykjavíkur, sem frestað var á fundi borgarstjórnar þann 19. febrúar sl.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert