Skorað á stjórnvöld að lækka álögur á eldsneyti

AP

Samtök ferðaþjónustunnar sendu í dag skriflega áskorun til forsætisráðherra, fjármálaráðherra, iðnaðarráðherra, samgönguráðherra og viðskiptaráðherra skriflega áskorun um aðgerðir vegna mikilla hækkana á eldsneyti.

Í áskoruninni segir:

„Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) kalla eftir sérstökum aðgerðum stjórnvalda vegna gríðarlegra hækkana á eldsneyti, því ekki er fyrirsjánlegt að lækkanir verði á næstunni.“

„Í mörgum greinum ferðaþjónustunnar eru kaup á eldsneyti ein af stærstu forsendum fyrir starfsemi fyrirtækjanna.  Farþegaflutningar í ferðaþjónustu eru mjög umfangsmiklir á Íslandi og auk þess eru margir sem treysta á þessa þjónustu í sínu daglega lífi.  Hækkun eldsneytisverðs hefur haft gríðarleg áhrif á rekstur þessara fyrirtækja. Ferðaþjónustan hefur í raun engan annan kost en að reyna að setja eldsneytisverðhækkanir inn í verð á þjónustu sinni.  Þetta getur reynst erfitt, því að samningar eru oft gerðir til langs tíma við erlenda birgja og það er því lítið sem ekkert svigrúm til að hækka verð frá því sem nú er.“ 

„Almenningssamgöngur með hópferðabílum er grunnþjónusta í samfélaginu, þar eru líka gerðir samningar til langs tíma og ekki hægt að hækka verð þjónustunnar. Samkeppni í greininni er mikil, hvort sem er á milli fyrirtækja hér á landi, en ekki síður við aðra áfangastaði, sem viðskiptavinir geta valið um.  Þetta ástand hefur þegar haft verulega íþyngjandi áhrif t.d. á rekstur á hópbifreiðum og á rekstur fyrirtækja sem bjóða snjósleða- og jeppaferðir.“

„Það er rétt að hafa í huga, að við erum í mikilli samkeppni við önnur lönd um áhuga og ferðir erlendra ferðamanna til landsins og hefur þessi samkeppni farið vaxandi á undanförnum misserum.  Verðlag hér á landi þykir hátt og frekari hækkanir eru ekki vænlegur kostur.  Eldsneytishækkanirnar geta því grafið undan frekari vexti ferðaþjónustunnar hér á landi, sem hefur verið lagt mikið kapp á að byggja upp á undanförnum árum.  Ferðaþjónustan skilar nú tæplega 13 % af gjaldeyristekjum þjóðarinnar.  Árið 2007 komu um 485.000 erlendir ferðamenn til landsins og beinar gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu fyrir árið 2007 verða líklega í kringum 55 milljarðar.“ 

„SAF skorar því á stjórnvöld að grípa til aðgerða, annaðhvort í formi eftirgjafar af hlut ríkisins í olíuverði eða með sértækum aðgerðum til handa fyrirtækjum í ferðaþjónustu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert