Fleiri alvarleg umferðarslys

Árið 2007 urðu 1.132 slys með meiðslum í umferðinni hér á landi.  Í þeim slösuðust 1.658 manns. Þar af slösuðust 195 alvarlega, en voru 153 árið 2006 sem er 27,5% aukning. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Umferðarstofu um umferðarslys á Íslandi.

Fram kemur að banaslysum hafi fækkað, en 15 manns létust í 15 umferðarslysum á árinu 2007. Árið 2006 lést 31 í 28 slysum.  Það hefur aðeins gerst tvívegis frá árinu 1970 að færri hafa látið lífið á einu ári í umferðinni hér á landi, að því er fram kemur í skýrslunni.

Meðal þess sem fram kemur í skýrslunni er að þrír ökumenn bifhjóla létust og 25 slösuðust á síðasta ári. Miðað við meðaltal fimm ára á undan er þetta fjölgun upp á 215% en meðaltalið er 13 einstaklingar. Umferðarstofa bendir hins vegar á að í raun er um hlutfallslega fækkun bifhjólaslysa að ræða miðað við þá miklu aukningu sem átt hefur sér stað  á fjölda skráðra bifhjóla og einstaklinga sem tekið hafa bifhjólapróf.

Árið 1998 var fjöldi skráðra bifhjóla rétt tæp 2.000 en í fyrra var talan komin upp í 8.074. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert