849 fóstureyðingar árið 2006

AP

Árið 2006 voru framkvæmdar 849 fóstureyðingar á Íslandi sem er lítillega fleiri en síðustu tvö ár. Þess ber þó að geta að fóstureyðingum fækkar ef miðað er við hverja 1000 lifandi fædda, samkvæmt upplýsingum úr talnabrunni landlæknisembættisins. Auk þess hefur fóstureyðingum fækkað hlutfallslega meðal 15 til 44 ára kvenna.

Núgildandi lög um fóstureyðingar voru sett 1975. Fóstureyðingum fjölgaði eftir setningu þeirra en hefur fækkað miðað
við fjölda kvenna hin síðari ár. Við nánari skoðun á aldurssamsetningu þeirra sem fara í fóstureyðingu sést að fóstureyðingum meðal 19 ára og yngri hefur farið fækkandi síðustu ár. Hlutfall fóstureyðinga meðal 19 ára og yngri af heildarfjölda fóstureyðinga er nú um 19% og hefur það ekki verið lægra eftir árið 1982.

Þessi lækkun hefur einkum verið rakin til tilkomu neyðargetnaðarvarna  sem komu á markaðinn árið 1998 svo og til öflugs fræðslu- og forvarnarstarfs, samkvæmt upplýsingum frá landlæknisembættinu.

519 ófrjósemisaðgerðir

Árið 2006 fóru 519 manns í ófrjósemisaðgerðir, þar af 313 karlar og 206 konur. Það er nokkur fækkun frá árinu 2005, en ófrjósemisaðgerðum hefur farið fækkandi síðustu ár

Þær voru flestar tæplega 800 í lok síðustu aldar. Árið 2005 voru  ófrjósemisaðgerðir í fyrsta skipti hlutfallslega fleiri hjá körlum en konum og jókst munurinn árið 2006. Fjöldi ófrjósemisaðgerða á hverjar 1000 konur á aldrinum 25 til 54 ára var þá 3,3 en 4,6 á hverja 1000 karla á sama aldri.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert