Engin tillaga um óperuhús uppfyllti markmið

Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, ávarpar viðstadda við kynningu …
Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, ávarpar viðstadda við kynningu á niðurstöðu dómnefndar í Salnum í dag.

Dómnefnd í samkeppni um hönnun Óperuhúss í Kópavogi taldi enga tillögu uppfylla markmið samkeppninnar nægjanlega vel til að unnt yrði á þessu stigi að velja eina þeirra til útfærslu. 

Þar sem dómnefnd þótti áhugaverðar lausnir koma fram í tveimur tillögum, annars vegar frá ALARK arkitektum og hins vegar frá Arkþingi ehf., og að í þeim lægju hugmyndir sem með áframhaldandi vinnu gætu fullnægt markmiðum keppninnar, mælti hún með því við undirbúningsnefndina að leitað yrði samstarfs við höfundana um þátttöku í framhaldskeppni. Undirbúningsnefndin samþykkti þá tillögu dómnefndar og höfundar tillagnanna hafa fallist á að taka þátt í slíkri keppni. Henni á að ljúka á hér um bil tveimur mánuðum.

Þremur íslenskum arkitektastofum var boðið að taka þátt í upphaflegu samkeppninni. Skilyrt var að þær fengju til liðs við sig erlenda samstarfsaðila sem hefðu reynslu af hönnun óperuhúsa eða sambærilegra mannvirkja.

Þátt tóku arkitektastofurnar ASK Arkitektar ehf. ásamt Lund & Valentin Arkitekter, ALARK arkitektar ásamt David Crossfield Associates og Arkþing ehf. ásamt Arkitema K/S. 

Markmiðið með óperuhúsinu er að það verði heimili fyrir óperuna á Íslandi og að þar verði fyrsta flokks aðstaða til óperu- og söngleikjaflutnings auk hliðstæðrar starfsemi, s.s. tónleika og annarrar sviðslistar eða uppákoma. Í keppnislýsingu var gert ráð fyrir að framkvæmdakostnaður næmi um það bil 2,5 milljörðum króna og húsið yrði risið árið 2010.

Í dómnefnd sitja Gunnar Ingi  Birgisson bæjarstjóri, formaður, Stefán Baldursson óperustjóri og arkitektarnir Ásdís Ingþórsdóttir, Ólafur Axelsson og Þorvaldur S. Þorvaldsson. Undirbúningsnefnd skipa Gunnar I. Birgisson, Ómar Stefánsson, formaður bæjarráðs Kópavogsbæjar, Hafsteinn Karlsson bæjarfulltrúi, Stefán Baldursson óperustjóri og Jón Helgi Guðmundsson forstjóri. 

Niðurstöðu dómnefndar, greinargerð hennar, umsagnir og teikningar keppenda má einnig finna á heimasíðu Kópavogsbæjar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert