Helfrost á fasteignamarkaði

Allt útlit er fyrir áframhaldandi lækkun fasteignaverðs og ljóst að innkoma bankanna á fasteignamarkaðinn olli fordæmislausri þenslu á markaðnum sem nú er að ljúka.

Þetta var öðrum þræði meginstefið á fjölsóttum fundi um stöðuna á fasteignamarkaðnum á Grand hóteli í gær þar sem sex framsögumenn ræddu ólíkar hliðar þróunarinnar.

Ingibjörg Þórðardóttir, formaður Félags fasteignasala, steig fyrst í pontu og vandaði ríkisstjórninni og Seðlabankanum ekki kveðjurnar í yfirferð sinni yfir ástæður hinnar miklu kólnunar á markaðnum.

„Til að berja í brestina hefur nú verið lagt í þá vegferð að ráðast að grundvallarstoðum hagkerfisins og nú skal knýja þar lækkun á húsnæðisverði. Gamla einræðisaðferðin að handstýra markaðnum er notuð. Seðlabankinn setur fram 30% verðlækkunarspá en slær jafnframt þá varnagla í spánni að um gríðarlega óvissu sé að ræða,“ sagði Ingibjörg.

Að mati Ingibjargar þarf að styrkja Íbúðalánasjóð og gera honum kleift að starfa í eðlilegu umhverfi. Sjóðurinn þurfi að geta staðið undir því hlutverki sem honum sé ætlað, meðal annars með því að hækka hámarkslánin og miða útlán við kaupverð fasteigna.

Þorsteinn Arnalds, aðstoðarframkvæmdastjóri mats- og hagsviðs Fasteignamats ríkisins, tók næstur til máls, en hann gerði samdrátt á fasteignamarkaðnum einnig að umtalsefni í erindi sínu. Gögn sýndu fram á að kaupsamningar á tólf vikna tímabili hefðu ekki verið færri frá árinu 1997. Að teknu tilliti til þess að nú væru fleiri íbúðir á markaðnum þyrfti að fara aftur til ársins 1994 til að finna jafn fáa kaupsamninga miðað við fjölda fasteigna.

Raunverð fasteigna væri mjög hátt og ljóst að 30% lækkun miðað við laun þýddi að fasteignaverð yrði svipað og það var sumarið 2004. Fasteignaverðið væri gróflega áætlað um 50% hærra miðað við laun en það var árið 2000.

Mesta fasteignabóla sögunnar

Arnór Sighvatsson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, setti stöðuna á íslenska fasteignamarkaðnum í alþjóðlegt samhengi. Undangengin 125% raunhækkun á fasteignaverði á Íslandi væri sú mesta í sögunni og ljóst að sú 30% raunlækkun sem spáð væri yrði sambærileg við meðalhjöðnun verðlags í kjölfar 24 sambærilegra húsnæðisverðsbóla í 15 aðildarríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).

„Allt frá því þessi mesta fasteignabóla Íslandssögunnar hófst hefur bankinn varað við því að henni myndi ljúka með verulegu falli í raunlækkun fasteignaverðs. Það er einfaldlega þannig að öllum fasteignaverðbólum veraldarsögunnar hefur lokið þannig,“ sagði Arnór, sem taldi óraunsætt að ætla að Ísland yrði þar undantekning í þessum efnum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert