300 þúsund rúmmetrar af jarðvegi fjarlægðir

Jarðvegur fjarlægður úr grunni hótelsins.
Jarðvegur fjarlægður úr grunni hótelsins.

Verktakafyrirtækið Klæðning vinnur um þessar mundir að mikilli jarðvinnu í grunni bílastæðahúss og hótels á svæðinu sunnan við tónlistar- og ráðstefnuhúsið við Reykjavíkurhöfn. Þrjú hundruð þúsund rúmmetrar af jarðvegi verða fluttir úr grunninum en grafið verður niður á allt að sjö metra neðan sjávarmáls. Áætluð verklok eru 1. mars 2009.

Klæðning segir, að til samanburðar hafi verið fjarlægðir á annað hundrað þúsund rúmmetrar af jarðvegi úr grunni tónlistar- og ráðstefnuhússins. Mikið af sjó kemur í grunninn og segir fyrirtækið að gera megi ráð fyrir að þegar framkvæmdum ljúki verði búið að dæla nokkrum milljónum tonna upp úr honum.

Mikið er sprengt og fleygað í grunninum.  Fyrsta áfanga verksins á að ljúka 1. júlí, öðrum áfanga lýkur 1. október í ár og þriðja og síðasta áfanga 1. mars á næsta ári. Klæðning segir, að tímasetningarnar gætu þó hæglega breyst þar sem enn hafi ekki verið tekin ákvörðun um hvort Geirsgata verði lögð í stokk á svæðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert