Akstur talinn sannaður

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt karlmann um fertugt í 140 þúsund króna sekt og svipt hann ökuréttindum í ár fyrir að aka undir áhrifum áfengis. Lögregla kom að manninum undir stýri á bíl á bílastæði á Eyrarbakka í febrúar.

Lögreglumaður sagðist hafa séð manninn setjast undir stýri og færa bílinn til. Þegar að var komið var bíllinn ekki í gangi og maðurinn sagðist ekki vita um kveikjuláslyklana. Hann sagði fyrir dómi, að hann hefði aðeins verið að sækja geisladiska út í bílinn en lyklarnir hefðu verið inni í húsi. 

Dómurinn segir í niðurstöðu, að þótt lögreglumaðurinn hafi verið einn við eftirlit þetta kvöld verði að telja sannað með staðföstum og skýrum vitnisburði hans fyrir dómi, að maðurinn hefði ekið bílnum. Áfengismagn í blóði mannsins mældist 1,29‰. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert