Sjö grafreitir fyrir fórnarlömb umferðarslysa

Grafreitirnir sjö
Grafreitirnir sjö

Þjóðarátak VÍS gegn umferðarslysum var kynnt á blaðamannafundi í Skautahöllinni í Laugardal í dag og til að minna á að akstur er dauðans alvara var sjö „grafreitum“ komið fyrir utan við fundarstaðinn, en það sem af er ári hafa sjö einstaklingar látið lífið í umferðaslysum hér á landi.

Á fundinum kom meðal annars fram hjá Ágústi Mogensen forstöðumanni Rannsóknarnefndar umferðarslysa (RNU) að deilur, rifrildi og andlegt uppnám var undanfari fjögurra af 15 banaslysum í umferðinni árið 2007.

Í þremur þessara tilfella kom áfengi einnig við sögu. Ágúst segir að slík slys verði gjarnan að sumarlagi þegar fólk er að skemmta sér og skemmtunin snýst upp í andhverfu sína þegar upp kemur ágreiningur og viðkomandi ekur á brott. Aksturslag þessara ökumanna einkennist oft af kæruleysi, hraðakstri og skeytingaleysi gagnvart hættum en með því leggja þeir bæði líf sitt og annarra í hættu. 

Í máli hans kom ennfremur fram að rannsóknir RNU bendi til þess að 5 banaslys í umferðinni á árunum 2001 til 2005 hafi verið sjálfsvíg.

Meðal þeirra þátta sem trufla einbeitingu ökumanna og sem Þjóðarátak VÍS beinist að í ár er notkun farsíma án handfrjáls búnaðar.

Að sögn Ragnheiðar Davíðsdóttur forvarnarfulltrúa hjá VÍS, í fréttatilkynningu, þarf að fylgjast betur með því að ökumenn tali ekki í síma á ferð nema að þeir noti handfrjálsan búnað. 

„Það vekur athygli að á sama tíma og skráðir eru 308 þúsund farsímar hér á landi og bílaeign hefur aldrei verið meiri, þá voru á árunum 2001 til 2006 aðeins 625 ökumenn kærðir að jafnaði á ári fyrir að tala í síma undir stýri. Þrátt fyrir að kærum hafði fjölgað í 1338 árið 2006 er ljóst að það þarf að leggja mun meiri áherslu á að breyta þessu hegðunarmynstri ökumanna enda er það vaxandi áhættuþáttur í umferðinni hér á landi,“ segir Ragnheiður.

Sem dæmi um að ólögleg farsímanotkun ökumanna fer síst minnkandi upplýsti Ragnheiður að könnun, sem VÍS lét gera milli kl. 16:00 og 18:00 síðast liðinn mánudag, leiddi í ljós að 343 ökumenn sem óku til suðurs um gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar á þessum tíma voru að tala í farsíma án handfrjáls búnaðar. Af ökumönnum sem töluðu í farsíma undir stýri án handfrjáls búnaðar voru 22 atvinnubílstjórar en 321 almennur bílstjóri.

„Okkar könnun náði aðeins til aksturs í aðra áttina á einum gatnamótum í Reykjavík á tveggja klukkustunda tímabili. Á þessum stutta tíma vorum við vitni að álíka mörgum brotum og að jafnaði var kært var fyrir á öllu landinu á sex mánaða tímabili á árunum 2001 til 2006. Það sjá það allir að hér þarf að verða breyting á,“ sagði Ragnheiður Davíðsdóttir.

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert