Regla að svæfa birnina

Þegar hvítabirnir koma nærri byggðum á Nýfundnalandi fer í gang viðbragðskerfi sem miðar að því að því tryggja öryggi almennra borgara og í lengstu lög er reynt að svæfa dýrin. Nýfundnaland er eins og Ísland í nágrenni Grænlandsíssins og vel þekkt til hvítabjarna þar.

Tom Burry, starfsmaður á náttúruverndarskrifstofu stjórnarinnar, sagði að reglan væri að nota deyfilyf á birnina, sem væru síðan fluttir til staða fjarri mannabyggðum. Afar fátítt væri að þeir væru drepnir. Burry kvaðst ekki telja að hvítabirnir færu þaðan suður til Nova Scotia.

Skammturinn kostar 39.000 kr.

Chris Murley, umhverfisverndarfulltrúi hjá stjórninni, tekur undir með Burry að leitað sé allra leiða til að svæfa dýrin og segir aðspurður að notast sé við deyfilyfið Telezol, sem kosti sem svarar hátt í 39.000 krónur skammturinn.

Murley tekur þó fram að margt þurfi að taka með í reikninginn. Búnaður til lyfjagjafar kosti jafnvirði um 80.000 króna, auk þess sem leiga þyrlu kosti um 160.000 krónur á hverja klukkustund, svo ekki sé minnst á búrið sem þurfi til og flutning þess og dýrsins á landi.

Aðferðin við svæfinguna sé sú að sé hvítabjörninn á opnu og öruggu svæði sé hann skotinn með Telezol og svo beðið í tíu til fimmtán mínútur þar til dýrið er sofnað. Þá er því komið fyrir í sterku neti og síðan sett í rammgert búr. Því næst er búrið flutt landleiðina norður á bóginn í átt að heimkynnum bjarna, áður en þyrlan flytur dýrið svo aftur síðasta spölinn í netinu.

Murley segir svæfinguna einkum kostnaðarsama þar sem viðbragðsáætlun sé ekki fyrir hendi, og að svæfingin sé ekki alltaf svo einföld, s.s. þegar dýrið er ekki á hentugum stað til að skjóta það með lyfi úr pílubyssu. Nærri þéttbýli kunni til dæmis að þurfa að beita blysbyssu og gúmmíkúlum til að hrekja dýrið út á opnari svæði. Sama viðbragðsáætlun sé notuð í Labrador.

Líkt og á Nýfundnalandi er almenna reglan á Svalbarða sú að fyrst skuli reyna að hrekja hvítabirni í burtu frá byggð með hávaða frá tækjum eða skothvellum, því næst með grænu ljósblysi, þá með gúmmíkúlum og loks með banvænum kúlum úr skotvopni eða öðrum vopnum, en aðeins ef hinar aðferðirnar bera ekki tilætlaðan árangur þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Þetta segir Jon Flogstad, lögregluþjónn í Longyearbyen á Svalbarða, í samtali við Morgunblaðið og tekur fram að sjaldgæft sé að birnirnir séu felldir þótt þeir sjáist nærri byggðinni á hverju ári. 

Þær upplýsingar fengust hjá Grænlandsstjórn að skjóta mætti hvítabirni ef þeir ógnuðu fólki, óháð því hvort búið væri að tæma veiðikvótann, en mikil hefð er fyrir veiðunum í landinu.

 
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert