Hundur á hverja tuttugu íbúa á Suðurnesjum

Hundum fer fjölgandi en köttum fækkar.
Hundum fer fjölgandi en köttum fækkar. Mbl/Jim Smart

Hundaeign hefur aukist gríðarlega á öllu landinu undanfarin misseri. Á Suðurnesjum eru um 1000 skráðir hundar. Það er einn hundur á hverja tuttugu íbúa. Köttum hefur hins vegar fækkað. Átak í kattaföngun verður á næstunni á Suðurnesjum.

Mun algengara er að köttum sé lógað en hundum. Árið 2004 var kattasamþykkt á Suðurnesjum og kattaeigendum gert að greiða 15.000 kr. skráningargjald fyrir hvern kött. Það ár voru svæfðar 300 kisur sem eigendur sóttu ekki til heilbrigðiseftirlitsins. „Það er töluverður kostnaður að vera með kött," segir Magnús H Guðjónsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja.  „Fólk tekur ekki að sér ketti án þess að hugsa sig vel um. Ef börnin koma heim með kettlinga frá nágrönnum eru þau frekar send til baka með kisurnar en að fjölskyldan leggi út í dýrahald án ígrundunar. Það er mikil breyting frá því sem var."

Kostnaður gæti hlaupið á tugum þúsunda

Núna er að fara í gang átak varðandi ketti á Suðurnesjum.  „Við ætlum að vera í öllum bæjarfélögum á Suðurnesjum með sérhannað búr til að fanga  ketti. Ef kötturinn er merktur þá verður athugað hvort hann sé skráður. Óskráða ketti verða eigendur að leysa út með tilheyrandi kostnaði sem gæti hlaupið á tugum þúsunda. Samkvæmt reglugerð má heilbrigðiseftirlitið ekki afhenda köttinn fyrr en eigendur hafa greitt allan kostnað ásamt skráningargjaldi. Skráðum köttum verður auðvitað sleppt án nokkurs kostnaðar."

Víkurfréttir skýra frá þessu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert